Leit stendur enn yfir að tveimur rjúpnaskyttum á sunnanverðu Snæfellsnesi, en þeirra hefur verið saknað frá því í gær. Um klukkan 11 tókst þeim að hafa samband við Neyðarlínuna í gegnum farsíma en mennirnir vita ekki hvar þeir eru nákvæmlega staddir. Björgunarsveitarmenn halda nú á þann stað þar sem talið er að mennirnir séu.
Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg taka nú yfir 100 manns þátt í leitinni, sem er enn í fullum gangi.
Frétt mbl.is: Um 80 manns leita rjúpnaskyttnanna
Leit hófst klukkan 22.30 í gærkvöldi og stóð yfir í nótt, en þá tóku um 40 manns þátt í leitinni auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunar aðstoðaði með því að fljúga yfir svæðið. Ekkert hafði þá spurst til þeirra í margar klukkstundir. Þyrlan tók með sér svokallaðan GSM-miðunarbúnað sem miðar út staðsetningu GSM-síma.
Mönnunum tókst hins vegar að hafa samband við Neyðarlínuna um kl. 11. Þeir vita ekki nákvæmlega hvar þeir eru staddir, sem fyrr segir, og þá eru þeir kaldir og hraktir.
Frétt mbl.is - Efla leit að rjúpnaskyttum í birtingu
Mennirnir héldu til veiða frá Slitvindastöðum í Staðarsveit í gærmorgun.
Upplýsingafulltrúi Landsbjargar tekur fram að ekki sé búið að finna mennina en allt kapp er lagt á að þeir finnist sem fyrst. Aðstæður til leitar eru slæmar en þarna er nú mikið rok og rigning. Þá er spáin ekki góð, en það mun hvessa í dag.
Landhelgisgæslan segir að varðskipinu Tý hafi verið beint á svæðið til að aðstoða við fjarskiptasamband. Það verður væntanlegt suður undir Kirkjuból um klukkan tvö. Það mun verða til taks meðan þörf er á til að aðstoða við fjarskipti.