Búið er að bjarga manni sem lenti í sjálfheldu í Gunnólfsvíkurfjalli síðdegis í gær, en erfiðlega gekk að komast til hans. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni var komið niður með manninn á sjötta tímanum í morgun.
Að sögn varðstjóra í lögreglunni á Þórshöfn var maðurinn, sem er bóndi á svæðinu, kominn niður í bíl um hálf sex í morgun.
Mikill viðbúnaður var hjá björgunarsveitum á Norðausturlandi, lögreglu og Landhelgisgæslunni vegna mannsins. Þyrla Landhelgisgæslunnar selflutti björgunarsveitarmenn nær manninum, en hann var í sjálfheldu í um 200 metra hæð í bjarginu við fossinn Míganda sunnan til í Gunnólfsvíkurfjalli á Langanesi.
Maðurinn hafði verið að leita kinda í fjallinu í gær þegar hann lenti í sjálfheldu. Hann lét vita af sér og hélt kyrru fyrir á syllu þangað til björgunarsveitarmenn komu honum til bjargar. Ekkert amaði að honum, en hann var með tvo hunda með sér og héldu þeir á honum hita á meðan hann beið aðstoðar.
Að sögn lögreglu voru aðstæður erfiðar, meðal annars vegna myrkurs, en tveir bátar lýstu upp fjallið fyrir björgunarsveitarfólkið í nótt.
Með sanni má segja að liðin helgi hafi verið annasöm hjá björgunarsveitafólki um allt land, því auk mannsins í Gunnólfsvíkurfjalli var leitað að rjúpnaskyttu við Botnsúlur síðdegis á laugardaginn og tveimur á Snæfellsnesi frá laugardagskvöldi þar til þær fundust um miðjan sunnudag. Skilyrði til leitar voru erfið í fjalllendinu á Snæfellsnesi og veðrið var leiðinlegt; þoka, rok og rigning. Alls tóku rúmlega 400 björgunarsveitamenn þátt í útköllum helgarinnar.