Kjaradeila kennara til ríkissáttasemjara

Ólafur Loftsson, formaður FG.
Ólafur Loftsson, formaður FG. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Samninganefnd Félags grunnskólkennara hefur vísað kjaradeila sinni við Samband íslenskra sveitarfélaga til ríkissáttasemjara. Þetta staðfestir Ólafur Loftsson, formaður FG, í samtali við mbl.is. Ekki tókst að ná saman á samningafundi í dag.

Samninganefnd FG sendi í kvöld eftirfarandi bréf til félagsmanna sinna þar sem greint er frá stöðunni:

„Fyrir stundu vísaði stjórn og samninganefnd FG kjaradeilu sinni við Samband íslenskra sveitarfélaga til ríkissáttasemjara. Í ljósi þess að skriður komst á viðræður í síðustu viku var ákveðið að reyna til þrautar að ná samningi í dag. Félag grunnskólakennara hefur í þessum viðræðum lagt áherslu á að ná fram meiri launahækkunum en voru í felldum samningum ásamt breytingu á vinnuumhverfi. Því miður náðist ekki samkomulag um nýjan kjarasamning og er það mat samninganefndar að of mikið beri í milli aðila til að samningar hefðu tekist á næstunni.

Eins og fyrr segir er málið því komið til ríkissáttasemjara sem tekur við verkstjórn samningaviðræðnanna í samræmi við lög þar um. Framundan er hið formlega ferli og mun sáttasemjari boða báða samningsaðila til fundar til að kynna sér stöðu mála. Í framhaldi verða samningaviðræður undir hans stjórn. Á næstu dögum munum við hitta trúnaðarmenn á fundum og fara yfir stöðuna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert