Sýslumaðurinn á Suðurlandi ákvað í gær að framlengja frest ríkisins til að taka afstöðu til nýtingar forkaupsréttar á jörðinni Fell við Jökulsárlón til 10. janúar nk., að því er fram kemur í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.
Að því er næst verður komist hafa stjórnvöld ekki tekið ákvörðun í málinu.
Hinn 4. nóvember sl. tók sýslumaður tilboði Fögrusala ehf. í Fell, en félagið bauð 1,5 milljarða króna. Á fundinum skiptust áhugasamir um að bjóða í jörðina en þegar niðurstaða lá fyrir áskildi hluti landeigenda sér rétt til að bera ákvörðun sýslumanns undir dómstóla.
Sumir þeirra hafa gert athugasemdir við málsmeðferðina og telja að hægt sé að skipta jörðinni.
Íslenska ríkið á forkaupsrétt og var gefinn frestur til 11. nóvember til að taka ákvörðun um nýtingu hans. Fresturinn hefur, sem fyrr segir, verið framlengdur til 10. janúar.