Ingibjörg Haraldsdóttir, ljóðskáld og þýðandi, er látin 74 ára að aldri.
Ingibjörg nam kvikmyndagerð í Moskvu á árunum 1963 til 1970 og bjó og starfaði í Havana á Kúbu að því loknu fram til ársins 1975. Fyrsta ljóðabók hennar kom út árið 1974 en Ingibjörg helgaði líf sitt skriftum eftir að hún flutti heim.
Eftir Ingibjörgu liggja fimm ljóðabækur og tvö ljóðasöfn, auk þess sem hún gaf út endurminningar sínar í bókinni Veruleiki draumanna árið 2007.
Ingibjörg var afkastamikill þýðandi úr rússnesku, spænsku og fleiri tungumálum. Hún þýddi helstu stórvirki rússnesku skáldanna Fjodors Dostojevskí og Mikhails Búlgakov, leikrit Tsjekov og Túrgenév og fleiri, auk ljóða rússneskra, sænskra, kúbanskra og annarra skálda í rómönsku Ameríku.
Ingibjörgu hlotnaðist margháttuð viðurkenning fyrir ritstörf sín. Ljóð hennar hafa verið þýdd á mörg tungumál og fyrir síðustu ljóðabók sína, Hvar sem ég verð, hlaut hún íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2002, auk þess sem bókin var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir hönd Íslands. Fyrir þýðingar sínar hlaut hún meðal annars Íslensku þýðingarverðlaunin og Menningarverðlaun DV.
Ingibjörg sat í stjórn Rithöfundasambands Íslands frá 1992 til 1998 og var formaður sambandsins frá 1994 til 1998. Hún var í ritnefnd Tímarits Máls og menningar frá 1977 og var aðstoðarritstjóri tímaritsins frá 1993 til 2000. Hún átti sæti í ritnefnd tímarits þýðenda, Jóns á Bægisá.
Ingibjörg lætur eftir sig tvö börn, Hilmar Ramos þýðanda og Kristínu Eiríksdóttur skáld og þrjú barnabörn.