„Ég hef ekkert heyrt í hvorki Benedikt né Óttari,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is spurð um mögulegar þreifingar vegna stjórnarmyndunar. Vísar hún þar til Benedikts Jóhannessonar, formanns Viðreisnar, og Óttars Proppé, formanns Bjartrar framtíðar. Píratar hafi ekki staðið í neinum viðræðum í þeim efnum og ákveðið að stíga aðeins til hliðar og leyfa fólki að reyna að finna lendingu.
„Við höfum auðvitað verið mjög skýr um að við eigum ekki alveg samleið með Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Ef það er hægt að finna einhverja skapandi lausn til þess að koma á vönduðum stjórnarsáttmála sem hægt er að gera og finna einhverja leið til þess að vinna hluti í þverpólitískri sátt þá er það frábært. En núna á Bjarni frumkvæðið þannig að hann þarf að finna einhverjar leiðir og ef það tekst ekki þá þarf kannski að reyna eitthvað annað. Þangað til erum við bara að undirbúa þingflokkinn og búa til ferla o.s.frv.“
Birgitta vísar þar til þess að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fékk stjórnarmyndunarumboðið frá Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, fyrir rúmri viku.