Slökkvið á símum og ekki gefast upp

AFP

Slökkvið á símum barnanna ykkar áður en þau fara í háttinn og gætið þess að þau fái nægan svefn. Ekki byrja að setja boð og bönn þegar þau komast á unglingsár því uppeldið þarf að byrja strax við fæðingu. Þetta er meðal þess sem rætt var á foreldradegi Heimilis og skóla sem var haldinn í samstarfi við Félag grunnskólakennara og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Öllum finnst sjálfsagt að börn læri íslensku, stærðfræði og fari í íþróttir í grunnskólanum en það er ekkert síður mikilvægt að þau læri geðrækt. Það er ekki nóg að eiga nóg af námsefni heldur þarf að koma því á framfæri af fólki sem er þjálfað í því.

AFP

Ingibjörg Eva Þórisdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu, fjallaði á fundinum um kvíða barna og unglinga, svefn og samfélagsmiðla. Hún segir, líkt og aðrir sem fluttu framsögu á fundinum að að sé orðið löngu tímabært að auka áherslu á geðrækt og bæta geðheilsu ungs fólks. 

Að sögn Ingibjargar nær rannsóknarröðin Ungt fólk yfir öll börn og ungmenni á Íslandi í 5.-10. bekkjum grunnskóla og eru um 4.000 þátttakendur á ári hverju. Töluvert hefur breyst í niðurstöðum rannsóknarinnar á undanförnum árum en árið 2010 mátu 42% stúlkna og 54% drengja andlega heilsu sína mjög góða.

Árið 2016 hafði staðan versnað til muna því aðeins 26% stúlkna og 38% drengja mátu andlega heilsu sína mjög góða. Ingibjörg segir að það sé mikill kynjamunur þegar kemur að andlegri heilsu. Strákum virðist almennt líða betur en stúlkum á þessum aldri. Nefnir hún sem dæmi að þunglyndi er algengara meðal stúlkna en stráka. Á þessum árum hefur einmanaleiki barna aukist en það eru miklu fleiri börn sem eru einmana en áður og eins eru þau kvíðnari.

Samfélagsmiðlar komnir til að vera

Ekki er ljóst hvað skýrir þessar breytingar, segir Ingibjörg en hún er búin að liggja yfir gögnunum. Hún segir mikilvægt að við horfum á hvað við getum gert í stað þess að einblína á vandann.

Ekkert bendir til þess að stuðningur foreldra við börn sín hafi minnkað en það sem hafi aukist er notkun þeirra á samfélagsmiðlum. Ekki að það eigi að koma á óvart enda snjalltækjaeign margfalt meiri nú en árið 2010.  

Sjáanleg fylgni er meðal þeirra sem eyða miklum tíma á samfélagsmiðlum og þeirra sem glíma við þunglyndi og kvíða. Á sama tíma er þunglyndi og kvíði miklu minna vandamál meðal þeirra sem eyða litlum sem engum tíma á samfélagsmiðlum. Að sögn Ingibjargar á þetta við um krakka í 9. og 10. bekk grunnskóla. 

En það sem er ljóst er að ungmenni sofa allt of lítið. Ungmenni eiga að sofa 9 klukkustundir á nóttu en hversu mörg ná því? 

Það er stöðugt áreiti frá snjalltækjum og erfitt fyrir marga …
Það er stöðugt áreiti frá snjalltækjum og erfitt fyrir marga að slökkva á tímaþjófinum. AFP

Í rannsókninni 2016 kom í ljós að um 40% ungmenna sofa allt of lítið. Þetta er mikið vandamál því svefn hefur áhrif á allt í lífinu og það er ekkert flott að sofa of lítið, segir Ingibjörg. Mikil fylgni er með litlum svefni og kvíða sem og þunglyndi. Eins er fylgni með litlum svefni og mikilli notkun samfélagsmiðla enda þurfa þau að finna tíma fyrir tækjanotkun og oft er hann fundinn með því að skera af svefntímanum. 

Ingibjörg segir að það þýði ekkert að ímynda sér að samfélagsmiðlarnir hverfi og það getur reynst erfitt að slökkva á símanum. Hún segir að það sé ýmislegt jákvætt að finna á samfélagsmiðlum en það er ekki nóg þegar miðlarnir hafa þau áhrif að ungmenni eru að klípa af svefntíma til þess að fylgjast með samfélagsmiðlum. 

Leggja tækin frá sér fyrr á kvöldin og lesa frekar bækur uppi í rúmi

Hennar ráð eru að leggja tækin frá sér fyrr á kvöldin og hvetja til þess að börn og ungmenni lesi frekar fyrir svefninn og séu þannig frekar tilbúin að fara að sofa þegar þau fara í háttinn.

Í umræðum á fundinum kom fram í máli námsráðgjafa sem starfar í grunnskóla að símar séu að fara með krakkana og þau sleppi hreinlega ekki símanum. Þetta sé að verða mikið vandamál  innan skólakerfisins og hvetur foreldra til þess að passa vel upp á svefn barna sinna. Því það er ekki nóg að þau fari inn í rúm heldur þarf að tryggja að þau sofi alla nóttina í stað þess að rjúfa svefninn með því að svara skilaboðum í símanum á nóttunni. 

Foreldrar, slökkvið á þessum tækjum klukkan 21 og geymið símann frammi eru ráð námsráðgafa. Því börnin fá ekki næga hvíld ekkert frekar en foreldrarnir. Þetta þýðir að þau virka ekki sem skyldi í skólastofunni og vímunefnaneysla og önnur neysla örvandi efna, svo sem orkudrykkja, getur fylgt í kjölfarið.

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Hjalti Jónsson er sálfræðingur hjá Sálfræðiþjónustu Norðurlands. Hann var sálfræðingur í VMA sem var einn fyrsti framhaldsskólinn til að bjóða upp á sálfræðiþjónustu. Hann fjallaði í sínu erindi um reynslu sína sem sálfræðingur á grunn- og framhaldsskólastigi og gaf góð ráð til foreldra.

14 þúsund krónur fyrir einn tíma hjá sálfræðingi

Að sögn Hjalta glíma rúm 14% ungmenna á aldrinum 14-18 ára við mikinn kvíða eða þunglyndi og tæp 28% þeirra eru með væg einkenni kvíða og þunglyndis. Það kostar 14 þúsund krónur tíminn hjá sálfræðingum úti í bæ og það eru bara alls ekki allir sem ráða við þann kostnað. Hann segist vonast til þess að sálfræðiþjónusta verði hluti af skólastarfinu líkt og stjórnendur VMA hafa valið. Það hafi strax skilað árangri, ekki bara þeim að ásókn í aðstoð skólasálfræðings hefur aukist ár frá ári heldur líka að það er ekkert feimnismál að leita sér aðstoðar. 

Með því að vera með sýnilegan sálfræðing í skólanum minnka fordómarnir og krakkarnir eru líklegri til að leita sér aðstoðar áður en vandinn verður nánast óviðráðanlegur.

Báðir framhaldsskólarnir á Akureyri eru með sálfræðinga starfandi í skólanum og það er sérstaklega mikilvægt í heimavistaskólum / skólum sem taka á móti börnum sem þurfa að flytja að heiman til þess að stunda nám í framhaldsskóla, segir Hjalti.

Ekki gera lítið úr kvíða barna

„Mín ráð til foreldra ekki gera lítið úr tilfinningum barna. Börn sem finna fyrir kvíða finna svo sannarlega fyrir honum og við eigum að hlusta á börnin okkar og taka mark á þeim,“ segir Hjalti og bendir foreldrum á að það þurfi að eyða óvissu hjá börnum – útskýra sem mest fyrir þeim því óvissa skapar kvíða. 

Ef einstaklingur með kvíðaröskun fær ekki meðferð við hæfi eftir að einkenni kvíðaröskunar verður vart aukast líkurnar á því að kvíðaröskunin viðhaldist og að einkenninn verði alvarlegri og krónísk fram á fullorðinsaldur. Að sögn Hjalta þýðir ekkert að lofa einhverjum úrbótum á kosningaári heldur verði að standa við loforðin sem gefin eru í undanfara kosninga. 

Ábyrgð foreldranna er líka mikil og það er ekki nóg að byrja að ala börnin upp þegar þau eru unglingar heldur verði að hefja uppeldið strax við fæðingu. Ekki setja reglur þegar börnin eru orðin 12 ára. Ekki slökkva bara allt í einu á tækjunum þeirra þá því að sjálfsögðu bregðast ungmenni illa við þegar allt í einu eru settar reglur sem ekki hafa verið áður. 

Heilbrigði og þar með geðheilbrigði er veigamikill þáttur í lífi …
Heilbrigði og þar með geðheilbrigði er veigamikill þáttur í lífi fólks og einn af hornsteinum lífsgæða og velgengni mbl.is/Golli

Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri geðræktar hjá Embætti landlæknis, fjallaði um hvað má betur fara í geðheilbrigðismálum í skólum í sínu erindi á fundi Heimilis og skóla. 

Hún segir að augu yfirvalda og stjórnvalda/skólayfirvalda beinist sífellt meira að geðheilsu og að skilja hversu mikilvæg hún er fyrir lýðheilsu og farsæld samfélaga. En til þess verði að skapa þannig aðstæður í lífi fólks að það búi við gott geðheilbrigði. Sú vinna þarf að fara fram á heimilinu og í skólanum. Þetta er vilji allra og er rauði þráðurinn í áherslum skólafólks.

70% geðraskana hafa komið fram fyrir tvítugt

Helmingur geðraskana er þegar kominn fram við 15 ára aldur og yfir 70% þeirra hafa komið fram fyrir tvítugt. Meðal ráða til þess að auka fjölskylduvænar aðstæður í samfélaginu er að auka samveru og nánd milli foreldra og barna. Það er ekki gert með því að láta börn fá miklu lengra sumarfrí en foreldrana og að þau fái vetrarfrí en ekki foreldrarnir.

Ekki gefast upp

Að sögn Sigrúnar er mikið til af námsefni til að bæta geðheilsu en þrátt fyrir háleit markmið er ekki gert ráð fyrir því að það þurfi að sinna geðrækt í skólastarfinu líkt og sést þegar farið er yfir námsgreinar í skólum og þann tíma sem þeim er ætlaður

„Ég vil fá sérstak fag sem heitir geðrækt og yrði hugsað svipað og íþróttakennsla. Eitthvað sem kennarar gætu menntað sig sérstaklega í,“ segir Sigrún og bætir við að geðrækt sé sérhæft svið sem ekki allir geti tekið að sér að kenna og miðla. 

Sigrún biður foreldra um að gefast ekki upp á kerfinu og minnir á að börn eigi rétt á niðurgreiddri þjónustu sálfræðinga og geðlækna. Ísland hafi löggilt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og skuldbundið sig til þess að brjóta ekki á réttindum barna.

Hún hvetur fólk til þess að berjast áfram fyrir þeim réttindum sem foreldrar og börn þeirra eigi rétt á samkvæmt lögum. En það sé óþolandi að foreldrar séu settir í þau spor að þurfa að berjast fyrir einhverju sem þeir eigi svo sannarlega rétt á. Flestum foreldrum nægi að þurfa að takast á við að barnið þeirra glími við erfiðleika svo ekki þurfi að bæta réttindabaráttu þar við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert