Reyndu að kveikja í jólageitinni

Rétt fyrir klukkan fimm í nótt reyndu tveir menn að kveikja í jólageit IKEA en höfðu ekki erindi sem erfiði eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði úr öryggismyndavélum verslunarinnar.

Á upptökum sjást mennirnir koma gangandi yfir brúna inn í Kauptúnið. Þeir staðnæmast við girðingu sem er í kringum jólageitina, draga þar upp útbúnað sem líkist molotov-kokteil, og kveikja í.

Eldurinn blossar upp nánast í fanginu á þeim og við það henda þeir hlutnum frá sér. Þá vill ekki betur til en svo að eldurinn læsist í nærliggjandi tré. Eftir það hlaupa mennirnir af vettvangi.

Ekki er vitað hverjir voru að verki og því hefur ekki verið lögð fram kæra. Eftirlit með geitinni verður eflt verulega, að sögn Guðnýjar Camillu Aradóttur, markaðs- og umhverfisfulltrúa Ikea.

Þetta er stórhættulegur leikur

„Mennirnir voru þarna klárlega komnir í þeim eina tilgangi að vinna skemmdarverk og heppnir að slasa sig ekki alvarlega. Einhverjir sjá mögulega skemmtanagildið í þessu en það er alveg á hreinu að við tökum þetta alvarlega. Það væri sorglegt að sjá þennan vinsæla jólagest verða til þess að fólk slasist vegna ranghugmynda um að geitin sé sett upp sem einhvers konar hvatning til fólks um að koma henni fyrir kattarnef. Þetta er stórhættulegur leikur. Við viljum gjarnan láta hana standa fram yfir jól, okkur og öðrum til yndisauka,“ segir Guðný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert