Formennirnir bjartsýnir á framhaldið

Formennirnir hressir í bragði á fundinum í morgun.
Formennirnir hressir í bragði á fundinum í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisn­ar, og Óttarr Proppé, formaður Bjartr­ar framtíðar, voru hress­ir þegar þeir mætt­u í morg­uns­árið til að funda í fjár­málaráðuneyt­inu um gerð stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar. Þeir eru bjart­sýn­ir á fram­haldið. 

„Er ekki alltaf gott að byrja á laugardagsmorgni, hressandi að vakna snemma í einhver verkefni,“ sagði Óttarr þegar hann mætti til funda í fjármálaráðuneytið.

Bjarni segist vonast til þess að fundurinn gangi vel í dag og að hægt verði að hefja viðræður af krafti.

Unnið þangað til kraftarnir klárast

Hvað gefið þið ykkur langan tíma í dag til funda?  

Benedikt: „Bara eins og þarf, nú er bara unnið þangað til kraftarnir eru búnir.“

Eru flokksmenn ánægðir með það að þessar viðræður séu formlega farnar af stað?

Benedikt: „Já, það er mikill fögnuður.“

Óttarr: „Það eru margir ánægðir en margir óöruggir líka. Þetta er í fyrsta skipti sem Björt framtíð tekur þátt í stjórnarmyndunarviðræðum. Þannig að þetta er nýtt fyrir okkur en við erum í pólitík til þess að hafa áhrif. Þannig að ég held að fólk sé spennt að sjá hvort þetta geti gengið upp.“

Teljið þið að það geti verið komin mynd á þetta fyrir miðja næstu viku líkt og Bjarni?

Óttarr: „Já, ég held að það skipti máli, á næstu dögum komi allavega í ljós hvort þetta geti gengið upp.“

Hvað um Evrópumálin og þessi stóru mál sem eru enn óleyst?

Benedikt: „Já, það þarf að leysa þau, út á það gagna viðræðurnar.“

Bjartsýnir á að það geti gengið upp að finna lausn á þessum stóru málum?

Óttarr: „Er ekki ágætt að fara inn í viðræður með það í huga að ræða málin og ná einhverri niðurstöðu? Við ætlum allavega að leggja af stað.“

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, …
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, í morgunsárið. mbl.is/Árni Sæberg

Niðurstöðu að vænta fljótlega eftir helgi 

Hver eru ykkar helstu málefni sem þið leggið fram í dag eða verður búin til sameiginleg viðræðuáætlun?

Óttarr: „Við erum auðvitað bara að hefja umræðurnar en það hafa ákveðin málefni komið upp í þessum samtölum okkar sem við vitum að við þurfum að horfa á. Sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál og Evrópumál eru mál sem við þurfum að skoða.“

Hvenær munu vinnuhópar frá flokkunum síðan hittast?

Óttarr: „Það á eftir að koma í ljós hér á eftir.“

Hvenær haldið þið að það komi í ljós hvort flokkarnir eigi samleið?

Benedikt: „Vonandi bara fljótlega eftir helgi. Við töluðum um það að nýta helgina og kannski mánudaginn í það að sjá hvort menn sæju til lands í þessum erfiðu málum en þetta er ekki búið fyrr en það er búið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert