Andlát: Páll Steingrímsson

Páll stofnaði framleiðslufyrirtækið Kvik árið 1973.
Páll stofnaði framleiðslufyrirtækið Kvik árið 1973. mbl.is/Ómar Óskarsson

Páll Steingrímsson kvikmyndagerðarmaður er fallinn frá, 86 ára að aldri.

Páll fæddist í Vestmannaeyjum 25. júlí 1930. Hann lauk prófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1951 en lagði auk þess stund á bókmenntir, líffræði- og myndlistanám í Kaupmannahöfn. Þá útskrifaðist Páll frá kvikmyndadeildinni í New York háskóla árið 1972.

Páll var farsæll kvikmyndagerðarmaður sem lagði áherslu á gerð heimildarmynda um náttúru, dýralíf og tengsl mannsins við náttúruna.  Eftir hann liggja fjölmargar heimildamyndir en meðal helstu mynda Páls má nefna Eldeyjuna (1973), Hvalakyn og hvalveiðar (1988), Oddaflug (1993), Litli bróðir í norðri (1996) og Öræfakyrrð (2004).

Hlaut fjölmargar viðurkenningar

Páll stofnaði framleiðslufyrirtækið Kvik sf. ásamt Ernst Kettler og Ásgeri Long í upphafi árs 1973 en nokkrum dögum síðar hófst Heimaeyjargosið í Vestmannaeyjum. Eldeyjan fjallar um Heimaeyjargosið en hún var fyrsta myndin í framleiðslu Kvik. Eldeyjan hlaut gullverðlaun á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Atlanta í Bandaríkjunum.

Páll var einn af stofnendum Félags kvikmyndagerðarmanna og formaður félagsins um skeið. Hann hlaut fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín hérlendis og erlendis, til að mynda heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar árið 2004. Þá var Páll sæmdur fálkaorðu forseta Íslands árið 2005.

Páll fékk einnig fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á Degi íslenskrar náttúru árið 2013. Í rökstuðningi dómnefndar sagði meðal annars: „Starf Páls að fræðslu og vernd íslenskrar náttúru er langt og farsælt og hefur borið hróður hans og landsins um heimsbyggðina.“

Páll hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín.
Páll hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín. mbl.is/Styrmir Kári

Alltaf á leið til eða frá Hellisey

Vestmannaeyjar og sérstaklega Hellisey voru sífellt í huga Páls og má segja að hann hafi alltaf verið á leiðinni þangað eða þaðan með nýjar hugmyndir í farteskinu. Annars leitaði Páll víða um heiminn að efni í myndir sínar.

Páll starfaði að kvikmyndagerð í fyrirtæki sínu, Kvik, allt til dauðadags og skilaði t.d. nýlega af sér heimildamynd um listamanninn Pál á Húsafelli. Síðustu árin starfaði hann mest með þeim Ólafi Ragnari Halldórssyni og Friðþjófi Helgasyni kvikmyndatökumanni.

Páll lætur eftir sig þrjú uppkominn börn, Gunnhildi, Steingrím Dufþak og Sylvíu, barnabörn og barnabarnabörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert