Kísilmálmframleiðsla hjá United Silicon í Helguvík var gangsett í fyrsta sinn í dag, en um er að ræða fyrstu kísilmálmverksmiðjuna á Íslandi.
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, setti af stað ljósbogaofn verksmiðjunnar, sem framleiðir kísilinn. Var það vel við hæfi þar sem hún tók fyrstu skóflustunguna að verksmiðjunni í ágúst 2014, að því er fram kemur í tilkynningu.
Lokið var við fyrsta áfanga byggingar kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík í ágúst og hefur félagið verið að prófa framleiðslubúnaðinn og undirbúa gangsetningu kísilmálmframleiðslu síðustu tvo og hálfan mánuð. Stærsta verksmiðjuhúsið er 38 metra hátt og um 5.000 fermetrar að stærð, en alls samanstendur verksmiðjan af sjö húsum.
Í ofnhúsinu er 32 megavatta ljósbogaofn, sem félagið hefur gefið nafnið Ísabella. Ofninn framleiðir kísilmálminn við 1900 gráðu hita við efnabreytingu af kvartsgrjóti. Í fyrsta áfanga verða framleidd 22.900 tonn í ofninum.
United Silicon hefur fengið starfsleyfi fyrir alls fjórum ofnum og er verksmiðjan hönnuð með þessa stækkun í huga. Miðað við fjóra ofna verður framleiðslugetan um 90.000 tonn á ári og verður verksmiðjan þá stærsta kísilverksmiðja í heimi. Kostnaðurinn við fyrsta áfanga verksmiðjunnar var um 12 milljarðar króna en fullbyggð mun hún kosta um 40 milljarða króna.
„Við erum mjög ánægð og stolt á þessum stóru tímamótum. Það er mjög góð tilfinning að verksmiðjan hefur verið sett í gang eftir gríðarlega mikinn undirbúning og byggingu fyrsta áfanga verksmiðjunnar,“ segir Helgi Björn, yfirverkfræðingur United Silicon, sem hefur starfað við undirbúning verkefnisins síðastliðin tíu ár.
„Þetta er stórt og umfangsmikið verkefni sem hefur á uppbyggingartíma skapað hátt í 300 störf og rúmlega 60 störf nú þegar verksmiðjan hefur starfsemi.“
Helgi segir verkefnið stærra en reiknað hafði verið með.
„Það hafa komið tímar þar sem þetta hefur verið mjög strembið fyrir okkur og við höfum unnið alla daga, kvöld og nætur síðastliðna mánuði en núna erum við komnir í mark og munum nú taka á móti fyrsta hrákísli sem framleiddur er á Íslandi.
Ég vil þakka öllum starfsmönnum United Silicon fyrir mikið og gott vinnuframlag síðustu mánuði til að ná þessum frábæra árangri, að gangsetja verksmiðjuna.“