Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segist ekki geta veitt upplýsingar um gang þeirra mála sem komið hafa á hans borð í kjölfar Panamaskjalanna.
„Við höfum ekki haldið utan um þetta út frá þessari tengingu við Panamaskjölin,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.
Ríkisútvarpið hefur greint frá því að 46 mál, þar sem talið er að um sé að ræða stórfelld brot, hafa verið send til embættis héraðssaksóknara eftir rannsóknir skattrannsóknarstjóra á aflandsgögnum. Nema skattaundanskotin hundruðum milljóna króna.
Frétt mbl.is: Undanskotin nema hundruðum milljóna
Ólafur bendir á að málsmeðferð einstaklinga tefjist vegna dómsmáls sem Jón Ásgeir Jóhannesson höfðaði fyrir nokkrum árum frammi fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.
„Hann taldi að með því að hafa fengið á sig álag, við endurákvörðun skattrannsóknarstjóra, hefði hann þegar tekið út refsinguna. Það er því deilt um það hvort það teljist vera refsing eða ekki, enda er reglan sú að ekki skuli refsað tvisvar fyrir sömu háttsemi.“
Sumir héraðsdómarar hafi þá frestað þeim málum sem höfðu verið höfðuð á hendur einstaklingum.
„Það er beðið eftir þessari niðurstöðu frá Strasbourg.“