Játa tilraun til fjárkúgunar gegn Sigmundi

Hlín Einarsdóttir mætir í dómsal í dag.
Hlín Einarsdóttir mætir í dómsal í dag. mbl.is/Eggert

Systurnar Hlín Einarsdóttir og Malín Brand játuðu að hafa staðið að fjárkúgunartilraun gagnvart Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrrverandi forsætisráðherra, við þingfestingu máls þeirra í héraðsdómi í dag. 

Hlín játaði brot sín í tengslum við tilraun til fjárkúgunar á meðan Malín neitaði samverknaði en játaði hlutdeild. Í þeim lið sem tengist fjárkúgun gegn fyrrverandi samstarfsmanni Hlínar neituðu báðar sök og einkaréttakröfu. Sagðist Hlín vera saklaus af þessum lið eins og hann væri settur fram.

Samkvæmt lögum er hægt að dæma vægari refsingu við hlutdeildarbrotum, sé hlutdeild viðkomandi er „smávægileg, eða er í því fólgin að styrkja áform annars manns, sem áður er til orðið, svo og þegar brot er ekki fullframið eða fyrirhuguð þátttaka hefur misheppnast.“

Óskað var eftir því af verjanda Hlínar að þinghaldið yrði lokað. Tengdist það máli fyrrverandi samstarfsmannsins, en eins og fyrr segir hafði Hlín ásakað hann um nauðgun og ætlaði hún að kæra hann ef ekki yrði af greiðslu á 700 þúsund krónum til hennar. Hlín neitaði sök í þessum ákærulið og það gerði Malín líka. Höfnuðu þær báðar einkabótakröfu í málinu. Þinghald í málinu hefst 14. desember.

Þingfesting málsins fór fram í dag, en í því eru systurnar ákærðar í einum lið fyrir fjárkúgun gegn fyrrverandi samstarfsmanni Hlínar, en samkvæmt ákæru hótaði hún manninum því að leggja fram kæru gegn honum fyrir að hafa nauðgað sér fengi hún ekki greiddar 700 þúsund krónur. Ræddi Malín í nokkur skipti við manninn og greindi frá fyriráætlunum Malínar. Tók Malín við fénu í tveimur greiðslum 10. apríl og 13. apríl í fyrra.

Malín Brand mætir í dómsal.
Malín Brand mætir í dómsal. mbl.is/Eggert

Þá eru þær ákærðar fyrir tilraun til fjárkúgunar í tveimur liðum fyrir að hafa sent tvö bréf þar sem farið var fram á 7,5 til 8 milljóna greiðslu frá Sigmundi. Ef ekki yrði við greiðslunni var ætlunin að birta opinberlega upplýsingar sem Hlín átti að hafa undir höndum um afskipti Sigmundar Davíðs af fjárhagsmálefnum Vefpressunnar. Var bréf sett inn um lúgu aðstoðarmanns Sigmundar, en það var ekki opnað fyrr en eftir að systurnar voru handteknar síðar.

Systurnar eru einnig ákærðar fyrir tilraun til fjárkúgunar fyrir seinna bréfið sem stílað var á eiginkonu Sigmundar, en það var sent 26. eða 27. maí. Var það samhljóma fyrra bréfi nema að upphæðin var komin upp í 8 milljónir. Fylgdu fyrirmæli um afhendingarmáta, gps-hnit og ljósmyndir af afhendingarstaðnum. Átti að afhenda féð 29. maí á Krýsuvíkurveg, en þar handtók lögreglan systurnar.

Fram kemur í ákærunni að Hlín hafi ritað bréfin og komið þeim til viðtakenda, en að Malín hafi prentað út bréfin og ritað nafn og heimilisfang á síðara bréfið.

Malín Brand og Hlín Einarsdóttir í dómsal í dag.
Malín Brand og Hlín Einarsdóttir í dómsal í dag. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert