Kveikt var í jólageitinni við IKEA við Kauptún í Garðabæ í nótt. Að sögn varðstjóra í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var tilkynnt um íkveikjuna um fjögurleytið og brann geitin nánast til kaldra kola.
Í síðustu viku var reynt að kveikja í jólageitinni en til skemmdarvarganna sást í öryggismyndavélakerfi fyrirtækisins.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sáust mennirnir sem eru grunaðir um að hafa kveikt í geitinni í nótt yfirgefa vettvanginn í bifreið. Lögreglan stöðvaði bifreiðina skömmu síðar og handtók þrjá. Tveir þeirra eru vistaðir í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.
Uppfært klukkan 8.53
„Skemmdarvargar kveiktu í jólageit IKEA í nótt og er hún gjöreyðilögð. Fólkið var elt uppi, fyrst af öryggisverði IKEA og svo tók lögreglan við og náði fólkinu loks við Bústaðaveg í Reykjavík. Tjónið er vel á aðra milljón króna og verða skemmdarvargarnir krafðir bóta. Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort geitin rísi á ný, enda er það bæði kostnaðarsamt og tímafrekt. Það er sorglegt að skemmdarfýsn sumra sé slík að engin virðing sé borin fyrir eigum annarra. Fólkið í nótt kom í þeim eina tilgangi að skemma og á nú yfir höfði sér kæru,“ segir í tilkynningu frá IKEA.