Öryggisvörður elti brennuvargana

Lögreglan náði skemmdavörgunum sem kveiktu í jólageitinni í IKEA í nótt. Öryggisvörður í IKEA sýndi mikið snarræði því hann elti fólkið uppi og í samvinnu við lögreglu náðist það við Grímsbæ. Fólkið verður kært og lögð fram bótakrafa, að sögn Guðnýjar Camillu Aradóttur, markaðs- og umhverfisfulltrúa IKEA. Tjónið er vel á aðra milljón króna.

„Öryggisvörður sem var á vakt sá fólkið sem kveikti í. Hann reyndi fyrst að sitja fyrir því og þegar það gekk ekki elti hann það niður að Grímsbæ þar sem lögreglan var með fyrirsát og fólkið var handtekið. Hann stóð sig mjög vel og hann gerði mun meira en til var ætlast af honum,“ segir Guðný. 

Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort geitin rísi á ný enda er það bæði kostnaðarsamt og tímafrekt að búa til nýja. „Þetta er mjög leiðinlegt; að fólk vilji skemma geitina. Hún er orðin hluti af jólahaldi og mörgum er farið að þykja vænt um hana,“ segir Guðný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert