Alda Hrönn Jóhannesdóttir, aðallögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, mun halda fyrirlestur á ráðstefnu um kynjað ofbeldi í lok nóvember í Helsinki í Finnlandi. Á kynningarsíðu ráðstefnunnar segir að Alda komi fram fyrir hönd lögreglunnar í Reykjavík.
Þetta kemur fram í frétt Fréttablaðsins í dag en Alda steig til hliðar hjá lögreglunni fyrir nokkrum vikum eftir að settur héraðssaksóknari hóf rannsókn á störfum hennar í LÖKE-málinu svonefnda. Tveir sakborningar í því máli sökuðu Öldu um að hafa misbeitt lögregluvaldi sínu við rannsókn þess.
Frétt mbl.is: Hefur stöðu sakbornings í LÖKE-máli
Í frétt Fréttablaðsins í dag er haft eftir Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra að Alda Hrönn gegni engum trúnaðarstörfum fyrir lögregluembættið eins og er. Þá er eftir henni haft að embættið geti ekki upplýst um hverjar kunni að vera fyrirætlanir Öldu á meðan hún er fjarverandi frá störfum og í leyfi.