Hvaða kosti hefur Katrín?

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hefur boðað Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á fund sinn í dag klukkan 13.00 og er almennt búist við að á fundinum verði henni falið að reyna að mynda ríkisstjórn. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fundaði með forsetanum í gær þar sem hann tilkynnti honum að hann hefði slitið stjórnarmyndunarviðræðum sínum við Viðreisn og Bjarta framtíð.

En hvaða stjórnarmyndunarkosti hefur Katrín? Hún hefur ítrekað sagt að fyrsti kostur hennar væri að reyna að mynda ríkisstjórn frá miðju til vinstri. Eigi sú stjórn að njóta meirihluta á Alþingi án þess að Framsóknarflokkurinn eða Sjálfstæðisflokkurinn eigi aðild að henni er ljóst að fimm flokka þarf til. Það er Pírata, Viðreisn, Bjartra framtíð og Samfylkinguna auk VG. Samanlagt hefði slík stjórn 34 þingmenn eða tveimur fleiri en minnsti mögulegi meirihluti.

Eftir þingkosningarnar settu Píratar fram þá hugmynd að mynduð yrði minnihlutastjórn VG, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem studd væri af þeim og Samfylkingunni. Sú hugmynd hefur hins vegar hlotið misjafnar undirtektir og er ólíklegt að til minnihlutastjórnar komi fyrr en þrautreynt er að mynda ríkisstjórn með meirihluta á þingi. En hvaða meirihlutastjórnir kunna að standa VG til boða?

Hér á eftir fer listi yfir þær þriggja, fjögurra og fimm flokka ríkisstjórnir sem VG getur mögulega myndað þar sem einungis er miðað við að nægjanlegur fjöldi þingmanna sé til staðar og óháð því hvort viðkomandi flokkar geti hugsað sér að starfa saman. Þannig hafa Píratar til að mynda þvertekið fyrir að starfa með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum og ítrekuðu það í gær.

Þriggja flokka ríkisstjórnir:

VG + Sjálfstæðisflokkurinn + Píratar = 41 þingmaður

VG + Sjálfstæðisflokkurinn + Framsóknarflokkurinn = 39 þingmenn

VG + Sjálfstæðisflokkurinn + Viðreisn = 38 þingmenn

VG + Sjálfstæðisflokkurinn + Björt framtíð = 35 þingmenn

VG + Sjálfstæðisflokkurinn + Samfylkingin = 34 þingmenn

Fjögurra flokka ríkisstjórnir:

VG + Píratar + Framsóknarflokkurinn + Viðreisn = 35 þingmenn

VG + Píratar + Framsóknarflokkurinn + Björt framtíð = 32 þingmenn

Fimm flokka ríkisstjórnir:

VG + Píratar + Viðreisn + Björt framtíð + Samfylkingin = 34 þingmenn

VG + Framsóknarflokkurinn + Viðreisn + Björt framtíð + Samfylkingin = 32 þingmenn

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka