Norska ríkið mátti sekta og síðar dæma tvo karlmenn í fangelsi vegna skattsvika þeirra þegar þeir svikust undan því að greiða skatta af um 432 milljónum króna söluhagnaði sem fór í gegnum aflandsfélög sem mennirnir áttu. Þetta er niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu. Málið gæti haft fordæmisgildi hér á landi í varðandi mál þar sem tekist er á um hvort refsað sé tvisvar fyrir sama brot.
Í málinu sem Mannréttindadómstóllinn dæmi í höfðu norsk skattayfirvöld rannsakað og kært brot tveggja fjárfesta sem höfðu látið aflandsfélög sín kaupa félagið Wnet AS sem síðar seldu hlutina áfram annars félags í Noregi. Kaupin og sölurnar áttu sér stað á tveggja mánaða tímabili, en hagnaðurinn nam 114,5 milljónum norskra króna, eða sem nemur 1,5 milljarði íslenskra króna.
Ekki var greiddur skattur af hagnaðinum og þegar norsk skattrannsóknaryfirvöld tóku málið til skoðunar töldu þau að vangreiddur skattur væri 32,5 milljónir norskra króna. Nemur það um 432 milljónum íslenskra króna.
Málið var kært til saksóknara, en auk þess lagði skattstjórinn í Noregi sekt á mennina tvo og 30% viðbótargjald. Síðar voru þeir fundnir sekir um skattalagabrot og fangelsaðir.
Þeir skutu málinu til Mannréttindadómstólsins og dæmdu 16 af 17 dómurum á þá leið að mennirnir hefðu ekki verið dæmdir eða þeim refsað fyrir brot sem þeir hefðu áður fengið lokadóm í.
Málinu svipar til máls Jóns Ásgeirs Jóhannessonar fjárfestis, Tryggva Jónssonar og Fjárfestingafélagsins Gaums, en árið 2013 tók Mannréttindadómstóllinn mál þeirra til meðferðar. Eftir rannsókn skattayfirvalda lagði ríkisskattstjóri og yfirskattanefnd 25% álag á skatta þeirra fyrir árin 1998 til 2002. Síðar dæmdi Hæstiréttur þá í skilorðsbundið fangelsi og til að greiða sektir fyrir brotin.
Samkvæmt nýlegum upplýsingum um stöðuna á rannsókn meintra skattbrota í tengslum við Panamaskjölin kom fram að 46 mál hefðu verið send til héraðssaksóknara. Um sé að ræða stórfelld brot og nemi meint skattaundanskot hundruðum milljóna króna. Hefur málsmeðferð meðal annars tafist vegna þess að beðið er dóms í máli Jóns Ásgeirs.