„Átti að vera öruggur fjarskiptamáti“

Samskipti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki verið dulkóðuð þangað til …
Samskipti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki verið dulkóðuð þangað til í dag. Hluti samskiptanna var settur á netið nýlega. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vissi að það væri grunur um að menn gætu hlustað á samskipti þeirra í gegnum svokallað Tetra-kerfi. Búið er að uppfæra mest allan búnað lögregluembættisins til að vera núna dulkóðaður og verður hann settur í gagnið í dag. Þetta staðfestir Ásgeir Þór Ásgeirsson  yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is. Fyrr í dag var greint frá því að hægt hefði verið að nálgast á vefsíðu upptökur úr kerfinu sem hefðu farið í gegnum ákveðið loftnet.

Frétt mbl.is: Fjarskipti lögreglu hleruð

Ásgeir segir að þegar Tetra-kerfið hafi verið tekið upp á sínum tíma hafi það meðal annars verið gert því það átti að vera öruggur fjarskiptamáti. „Það átti ekki að vera hægt að hlera,“ segir Ásgeir og vísar til þess þegar lögreglan notaði áður talstöðvar sem auðvelt var að hlera með litlum tilkostnaði.

„Það er mjög óheppilegt að þetta hafi verið hægt,“ segir Ásgeir og bætir við að þegar upp hafi komið grunur um að hægt væri að hlusta á samskiptin hafi lögreglan ráðist í uppfærslu búnaðar og í dag væru allar handstöðvar lögreglumanna í höfuðborginni með dulkóðunarbúnaði sem og flestar bílstöðvar. Verið væri að leggja lokahönd að uppfæra allan flotann.

Ásgeir segir ástæðu þess að ekki hafi verið búið að skipta á dulkóðunina fyrr vera þá að sumir samstarfsaðilar lögreglunnar hafi ekki verið tilbúnir með þennan búnað.

Eitt þeirra fyrirtækja sem notast einnig við Tetra-kerfið er öryggisfyrirtækið Securitas. Samkvæmt upplýsingum mbl.is má í þeim gögnum sem sett voru á netið meðal annars finna samtal þar sem upplýsingar um öryggiskóða eru lesnar upp.

Securitas er meðal fjölda fyrirtækja og stofnana sem notast við …
Securitas er meðal fjölda fyrirtækja og stofnana sem notast við Tetra-kerfið.

Guðmundur Arason, forstjóri Securitas, segir í samtali við mbl.is að það sé klárlega óþægilegt að frétta að þessi samskipti séu ódulkóðuð. Hann segir aftur á móti að starfsmenn fyrirtækisins noti aukalega kóðun í sínum samskiptum í gegnum öll fjarskipti. Þetta sé hefð frá dögum CB-talstöðva og hafi verið haldið áfram. Því sé ólíklegt að tölur sem heyrist á upptökum séu í raun réttar tölur.

Hann segir Securitas í framhaldi af þessum fréttum munu skerpa á sínu verklagi varðandi kóðun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert