Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, gerir ekki ráð fyrir því að önnur jólageit verði reist fyrir jólin í stað þeirrar sem var brennd aðfaranótt mánudags.
„Ég reikna ekki með því að við gerum það,“ segir Þórarinn í samtali við mbl.is en það er meira en að segja það að setja upp eina jólageit:
„Þetta er það mikil vinna, allavega 10 daga vinna. Þeir sem eru bitasmiðir hjá mér eru líka ábyrgir fyrir snjómokstrinum. Nú er farið að snjóa og spáð meiru og mér þykir ólíklegt að það verði gerð ný geit á þessu ári.“
Manni og konu sem kveiktu í geitinni aðfaranótt mánudags var sleppt eftir yfirheyrslu. Málið telst upplýst, að sögn lögreglu, og verður vísað til ákærusviðs. Áður hafði verið gerð tilraun til íkveikju í síðustu viku. Einnig var kveikt í jólageit við verslun IKEA í fyrra, fyrir fjórum árum og sex árum.
„Það er rosalega lítil stemning í því að keyra sig út til að smíða geitina bara til að sjá hana brennda. Það er ekki það sem við viljum. Þetta er orðinn pínu sirkus sem við viljum hægja aðeins á. Ég held að það sé komið gott af þessu í bili,“ segir Þórarinn.