Miklar efasemdir um fimm flokka stjórn

Sigurður Ingi Jóhannsson að fundinum loknum.
Sigurður Ingi Jóhannsson að fundinum loknum. mbl.is/Árni Sæberg

„Fundurinn var mjög góður. Við fórum yfir helstu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í stjórnmálunum og viðfangsefnin í samfélaginu okkar,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, eftir að hafa ásamt Lilju Alfreðsdóttur, varaformanni flokksins, fundað með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, í Alþingishúsinu.

„Við ræddum einnig þau álitaefni sem koma upp á milli Framsóknarflokksins og Vinstri grænna, samlegð okkar í einstökum málefnum en líka ólíka nálgun á einstök mál og hvort hægt verður að ná saman um þau.“

Staða á vinnumarkaðinum áskorun

Spurður nánar út í málefnin sagði hann flokkana ólíka en að ákveðin samlegð sé í mjög mörgu. „Við höfum talað fyrir auknum jöfnuði. Það er hins vegar verkefni á næstu árum að fara í enn frekari innviðauppbyggingu í heilbrigðismálum, menntamálum, samgöngumálum og fjarskiptum. Við vorum að ræða þessar leiðir,“ sagði Sigurður Ingi.

„Stærstu áskoranirnar sem eru framundan er staðan á vinnumarkaðinum og sú staðreynd að gengi krónunnar hefur styrkst mjög mikið með tilheyrandi áhrifum á efnahagslífið. Við ræddum nálgun á því hvernig hægt er að taka á slíku.“

Frá fundi Katrínar, Lilju og Sigurðar Inga.
Frá fundi Katrínar, Lilju og Sigurðar Inga. mbl.is/Árni Sæberg

Að sögn Sigurðar Inga er niðurstaða fundarins sú að á milli flokkana séu engin mál þar sem „stórkostlegur ágreiningur“ ríkir.

„Sýnin á Evrópusambandið er sú sama, svo dæmi sé tekið, þótt ég hafi haft þá skoðun að það er engin ástæða fyrir því að hafa það mál á dagskrá í augnablikinu.“

Kæmi það til greina hjá ykkur að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna aðildarviðræðna við ESB?

„Við útilokum ekkert um hvort þjóðin hafi áhuga á aðild að Evrópusambandinu en okkur finnst við þær aðstæður sem uppi eru, annars vegar í ESB og þegar okkar stærsta viðskiptaland Bretland er að ganga úr Evrópusambandinu, að það sé mjög óeðlilegur tími að taka þá umræðu á Íslandi þegar við stöndum frammi fyrir allt, allt öðrum áskorunum og álitaefnum í okkar efnahagslífi,“ sagði hann.

Fólk með litla reynslu

Aðspurður hvort Framsóknarflokkurinn sé reiðubúinn til að taka þátt í fimm flokka stjórn sagði hann:  „Við höfum sagt að það þurfi breiðari skírskotun, það hafi verið niðurstaða kosninganna. Við höfum hins vegar miklar efasemdir um að fimm flokka stjórn með mikið af nýju fólki með litla reynslu af því að sitja á þingi, hvað þá í ríkisstjórn, sé líkleg til þess að ráða við þau stóru verkefni sem bíða okkar í bráð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka