Líst afleitlega á fimm flokka stjórn

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins eftir fund sinn með Katrínu Jakobsdóttur.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins eftir fund sinn með Katrínu Jakobsdóttur. mbl.is/Golli

„Þetta var ágætur fundur. Hann var haldinn í framhaldi af þeim fundum sem við höfum átt frá kosningum fram til þess tíma að ég fór í formlegar viðræður við Viðreisn og Bjarta framtíð,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, eftir fund sinn með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, í Alþingishúsinu. 

„Katrín sagði mér að hún vildi láta reyna á hugmyndina um vinstri- miðjustjórn. Við eyddum ekki miklum tíma í það heldur frekar í að horfa fram á veginn og velta fyrir okkur þessari stöðu sem er komin hér upp, hvaða verkefni bíða nýrrar ríkisstjórnar og hvaða áskoranir eru til staðar,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is.

Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson.
Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson. mbl.is/Golli

Hvað finnst þér um hugmynd Katrínar um fimm flokka stjórn?

„Mér líst afleitlega á þá hugmynd. Það sagði ég við Katrínu. Í fyrsta lagi vegna þess að það eru svo margir kostir í stöðunni á þriggja eða eftir atvikum fjögurra flokka stjórn, að mér finnst fimm flokka stjórn vera hugmynd sem gengur alls ekki upp.“

Bjarni kveðst tilbúinn til að ræða við Vinstri græna ef Katrínu tekst ekki að mynda fimm flokka stjórn. „Við getum að minnsta kosti látið á það reyna á það hvort við getum komið saman málefnasamningi sem tekst á við verkefnin sem bíða okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert