Öll fjarskipti dulkóðuð á næstunni

Öll samskipti ríkislögreglustjóra verða dulkóðuð á næstu dögum, meðal annars …
Öll samskipti ríkislögreglustjóra verða dulkóðuð á næstu dögum, meðal annars hjá sérsveitinni. mbl.is/Rósa Braga

Ríkislögreglustjóri segir að öll fjarskipti lögreglumanna embættisins verði á næstu dögum dulkóðuð. Mbl.is sagði frá því í vikunni að hægt væri að hlusta á samskipti lögreglunnar og annarra viðbragðsaðila á netsíðu, en einhver virðist hlera samskiptin sem ekki eru dulkóðuð og skella beint á netið. 

Í framhaldinu tilkynnti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að þar á bæ yrðu öll fjarskipti dulkóðuð samdægurs, en búnaður hafði verið til staðar frá því í vor að dulkóða samskiptin. Aftur á móti var beðið eftir að samstarfsaðilar lögreglunnar myndu uppfæra sinn búnað.

Samskipti ríkislögreglustjóra, sem sérsveitin heyrir meðal annars undir, voru aftur á móti áfram ódulkóðuð. Í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra segir að brugðist verði við þessu á næstu dögum. Þá er reiknað með að öll lögregluembætti landsins verði á næstunni komin með slíkan búnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert