Lögregla hefur hafið rannsókn á hlerun Tetra-kerfisins, að því er fram kemur á vef Ríkisútvarpsins. Rannsóknin hófst í dag en RÚV gat ekki fengið nánari upplýsingar um hvernig henni væri háttað, vegna rannsóknarhagsmuna.
mbl.is sagði frá því í vikunni að hægt væri að hlusta á samskipti lögreglunnar og annarra viðbragðsaðila á netinu, en einhver virtist hlera þau samskipti sem ekki væru dulkóðuð og streyma á netinu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tilkynnti í kjölfarið að hún hygðist dulkóða öll fjarskipti, en búnaður til þess hafði verið til frá því í vor. Beðið var eftir því að samstarfsaðilar lögreglunnar uppfærðu sinn búnað.