Ríkið tapar máli um innflutningsbann á hráu kjöti

Innflutningsbann er á hráu kjöti nema það sé fryst. Héraðsdómur …
Innflutningsbann er á hráu kjöti nema það sé fryst. Héraðsdómur hefur dæmt ríkið skaðabótaskylt vegna bannsins sem er í andstöðu við EES samninginn. mbl.is/Golli

Íslenska ríkið þarf að greiða fyrirtækinu Ferskar kjötvörur ehf rúmlega 300 þúsund í bætur eftir að hafa stoppað innflutning fyrirtækisins á 83 kílóum af nautalundum árið 2014 og fargað þeim þar sem ekki var hægt að sanna að kjötið hafði verið geymt í frysti í einn mánuð.

Kærði fyrirtækið ákvörðunina og fór fram á bætur. Héraðsdómur óskaði í kjölfarið eftir ráðgefandi áliti frá EFTA-dómstólnum varðandi ágreininginn, en kærandinn taldi innflutningsbann á ófrystri kjötvöru vera í andstöðu við EES-skuldbindingar íslenska ríkisins.

Í svari EFTA frá því í febrúar á þessu ári segir að gildissvið EES-samningsins leiddi ekki til þess að EES-ríki hefðu frjálsar hendur um setningu innflutningsbanns á hráa kjötvöru. Í dómi héraðsdóms er álit EFTA-dómstólsins notað til grundvallar í málinu.

Héraðsdómur bendir meðal annars á að líta beri til þess að Eftirlitsstofnun EFTA hafi þegar á árinu 2011 kvartað við íslensk stjórnvöld yfir innflutningsbanninu og komist að þeirri niðurstöðu að um brot á skuldbindingum sé að ræða árið 2013. „Í þessu ljósi var um vísvitandi og alvarlegt brot á samningsskuldbindingum íslenskra stjórnvalda að ræða, sem leiddi til tjóns fyrir stefnanda, sem greitt hafði fyrir kjötið og flutning þess hingað til lands,“ segir í dómi héraðsdóms.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert