Leitin að rjúpnaskyttunni austur á Héraði sem staðið hefur yfir síðan í gærkvöldi hefur enn engan árangur borið. Áfram verður leitað í kvöld og nótt en þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Fleira björgunarsveitarfólk hefur verið kallað til leitarinnar svo hægt verði að leita af krafti þegar birtir í fyrramálið en rúmlega 370 björgunarsveitamenn víðs vegar af landinu hafa komið að leitinni til þessa.
Dimm él komu í veg fyrir að hægt væri að nýta þyrlu Landhelgisgæslunnar til leitar fyrr en um klukkan 16.00 í dag. Þá létti til og þyrlan komst í tæplega tveggja tíma leitarflug sem ekki skilaði árangri.
„Staðan er þannig að það er verið að fínkemba svæðið, hlíðina frá Einarsstöðum, þar sem hann lagði af stað og ætlaði að skila sér til baka. Það er verið að fínkemba þá hlíð í norður. Þetta er skógi vaxin hlíð og erfiður snjór og það er svolítið erfitt fyrir okkar fólk að athafna sig þar,“ sagði Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, um stöðu mála.
Eins og áður kom fram eru aðstæður til leitar afar erfiðar. Snjórinn er of mikill fyrir fjór- og sexhjól björgunarsveitarmannanna en of lítill fyrir vélsleða. Því hafa leitarmenn aðallega farið yfir fótgangandi, á þrúgum eða á skíðum.