Fundur fimm flokka undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, um grundvöll fyrir ríkisstjórnarsamstarfi hefst kl. 13 í dag. Gert er ráð fyrir að fundurinn standi yfir í tvo tíma en að honum loknum ættu línur að skýrast um hvort fjölflokkastjórnin sem Katrín hefur talað fyrir sé raunhæfur kostur.
Katrín fékk stjórnarmyndunarumboð frá Guðna Th. Jóhannessyni forseta á miðvikudag eftir að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sleit viðræðum við Bjarta framtíð og Viðreisn á þriðjudag. Formaður VG fundaði með forystumönnum allra flokka á fimmtudag og í gær boðaði hún svo til fundar með fulltrúum Bjartrar framtíðar, Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar í dag.
Í samtali við Mbl.is í gær sagði Katrín að fundurinn í dag væri könnunarfundur til að ræða grundvöll fyrir stjórnarsamstarfi. Hún gerði ráð fyrir að þingflokkar flokkanna myndu funda hver í sínu horni eftir sameiginlega fundinn í dag.
Þingflokkur VG mun funda eftir könnunarfundinn í dag, að því er kom fram í tilkynningu sem Katrín sendi frá sér í gær.