Leita enn að rjúpnaskyttunni

Frá leit björgunarsveitarmanna að rjúpnaskyttunni í nótt. Erfiðar aðstæður hafa …
Frá leit björgunarsveitarmanna að rjúpnaskyttunni í nótt. Erfiðar aðstæður hafa verið til leitar á svæðinu. ljósmynd/Landsbjörg

Alls hafa um tvö hundruð björgunarsveitarmenn tekið þátt í leit að rjúpnaskyttu sem skilaði sér ekki til hóps rjúpnaveiðimanna á Héraði í gær. Leitað var að manninum í alla nótt en veður versnaði á svæðinu þegar líða tók á nóttina og er færi þungt fyrir ökutæki og gangandi leitarmenn.

Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að óþreytt björgunarsveitafólk hafi tekið við af þeim sem fyrst hófu leitina en björgunarsveitir allt frá Eyjafirði og suður til Öræfasveitar hafa verið kallaðar út, auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar flutti björgunarsveitamenn með sporhunda á leitarsvæðið.

Frétt Mbl.is: Rjúpnaskyttan enn ófundin

Alls hafa um 200 björgunarsveitarmenn tekið þátt í aðgerðum á svæðinu og fleiri eru í startholunum ef þörf krefst þegar líða tekur á morguninn.

Rauði krossinn hefur sett upp aðstöðu í grunnskólanum á Egilsstöðum þar sem björgunarsveitarfólk getur hvílt sig milli leitarlota.

Maðurinn sem leitað er að er á fertugsaldri. Hann gekk til rjúpa frá sumarhúsabyggðinni í landi Einarsstaða á Héraði.

Uppfært 07.31 Samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar er þyrla hennar í viðbragðsstöðu til að hjálpa til við leitina. Fram að þessu hafa veðuraðstæður gert henni ókleift að taka þátt í leitinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert