Leitin hefur engan árangur borið

TF-LIF á Egilsstöðum í nótt.
TF-LIF á Egilsstöðum í nótt. ljósmynd/Landhelgisgæslan

Rjúpnaskyttan sem hefur verið saknað austur á Héraði frá því í gær er enn ófundin. Fimmtíu björgunarsveitarmenn frá höfuðborgarsvæðinu bættust við leitarhópinn í hádeginu en rúmlega 300 björgunarsveitarmenn af öllu landinu eru við leit.

Þyrla Land­helg­is­gæsl­unn­ar komst á loft til að aðstoða við leitina fyrir um klukkustund, samkvæmt upplýsingum frá Þorsteini G. Gunnarssyni, upp­lýs­inga­full­trúa Slysa­varna­fé­lags­ins Lands­bjarg­ar. Veður hefur verið slæmt og þyrlan hafði ekki komist fyrr á loft.

„Staðan er þannig að það er verið að fínkemba svæðið, hlíðina frá Einarsstöðum, þar sem hann lagði af stað og ætlaði að skila sér til baka. Það er verið að fínkemba þá hlíð í norður. Þetta er skógi vaxin hlíð og erfiður snjór og það er svolítið erfitt fyrir okkar fólk að athafna sig þar,“ sagði Þorsteinn um stöðu mála.

Frétt mbl.is: Liðsaukinn á leiðinni austur

Eins og áður kom fram eru aðstæður til leitar afar erfiðar. Snjórinn er of mikill fyrir fjór- og sex­hjól björg­un­ar­sveit­ar­mann­anna en of lít­ill fyr­ir vélsleða. Því hafa leit­ar­menn aðallega farið yfir fót­gang­andi, á þrúg­um eða á skíðum. 

Ekki sé unnt að not­ast við miðun­ar­búnað vegna farsíma þar sem vitað er að rjúpna­skytt­an er ekki með farsíma meðferðis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert