Liðsaukinn á leiðinni austur

Björgunarsveitarmenn ganga um borð í flugvél Flugfélags Íslands á leið …
Björgunarsveitarmenn ganga um borð í flugvél Flugfélags Íslands á leið austur nú fyrir hádegið. ljósmynd/Landsbjörg

Fimmtíu björgunarsveitarmenn af höfuðborgarsvæðinu eru nú á leið austur á Hérað til að taka þátt í leit að rjúpnaskyttunni sem hefur verið saknað frá því í gærkvöldi. Þyrla Landhelgisgæslunnar bíður í viðbragðsstöðu á Egilsstöðum eftir að veður batni svo hún geti farið til leitar.

Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að flugvél Flugfélags Íslands hafi farið í loftið laust fyrir hádegi. Með henni fóru fimmtíu björgunarsveitarmenn af höfuðborgarsvæðinu, þrír leitarhundar og eitt og hálft tonn af búnaði. Vélin á að lenda á Egilsstöðum rétt fyrir kl. 13.

Frétt Mbl.is: Bæta við leitarmönnum frá Reykjavík

Þegar mannskapurinn kemur austur verða þar rúmlega þrjú hundruð björgunarsveitarmenn af nær öllu landinu þar. Einhverjir séu í hvíld en Þorsteinn telur að nú séu um 220 þeirra við leit. Aðgerðin sé afar fjölmenn.

Þyrlan leitaði í nótt á meðan aðstæður leyfðu

Aðstæður á leitarsvæðinu hafa verið erfiðar. Þorsteinn segir að snjórinn þar sé of mikill fyrir fjór- og sexhjól björgunarsveitarmannanna en of lítill fyrir vélsleða. Því hafa leitarmenn aðallega farið yfir fótgangandi, á þrúgum eða á skíðum.

„Það er svona talið að það sé eiginlega ekkert annað en snjóþrúgur og skíði sem duga enda var það fyrirferðarmikið í farangri björgunarsveitarmannanna sem voru að fara áðan,“ segir Þorsteinn.

Ekki hefur verið hægt að senda þyrlu Landhelgisgæslunnar til leitar vegna veðurs. Þorsteinn segir að dregið hafi úr vindi en enn gangi á með dimmum éljum.

TF-LIF á Egilsstöðum í nótt.
TF-LIF á Egilsstöðum í nótt. ljósmynd/Landhelgisgæslan

Í tilkynningu frá Gæslunni kemur fram að TF-LIF hafi farið á vettvang og með henni fóru tveir leitarmenn ásamt leitarhundum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg í gærkvöldi. Þyrlan hafi leitað eins og aðstæður buðu en skyggni á vettvangi hafi verið slæmt og þurfti því að hætta leit rétt eftir klukkan eitt í nótt.

Ekki sé unnt að notast við miðunarbúnað vegna farsíma þar sem vitað er að rjúpnaskyttan er ekki með farsíma meðferðis. Þyrlan og áhöfn hennar hafi beðið átekta á Egilsstöðum í nótt og leit verði framhaldið með þyrlu um leið og veðuraðstæður leyfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert