Leitin að rjúpnaskyttunni austur á Héraði sem staðið hefur yfir síðan á föstudagskvöld hefur enn engan árangur borið. Leit hefst aftur af fullum krafti nú þegar birta tekur.
Lágmarksleit fór fram í nótt en samkvæmt upplýsingum frá Þorsteini G. Gunnarssyni, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar, voru um 30 manns úti á leitarsvæðinu í nótt með ljós. Aðaltilgangurinn með því var að gera sig sýnilega ef ske kynni að einhver hreyfing væri á þeim týnda.
Stjórnendur leitarinnar fóru yfir stöðuna í nótt og skipulögðu leit dagsins. „Við gerum ráð fyrir því að með morgninum verði um og yfir 200 manns úti við leit. Alls hafa um 440 björgunarsveitarmenn komið að leitinni á einn eða annan hátt,“ segir Þorsteinn.
„Áfram verður aðaláherslan lögð á leitarsvæði frá því að skyttan skildi við félaga sína og hélt til baka í átt að Einarsstöðum,“ segir Þorsteinn en björgunarsveitarmenn hafa leitað í hlíðinni frá Einarsstöðum í norður. „Þó að aðaláherslan sé þar þá verður einnig leitað á öðrum stöðum,“ bætir Þorsteinn við en vélsleðahópar leita til að mynda á öðrum stöðum.
Veðurútlit á leitarsvæðinu er mun betra en það var í gær en þá voru aðstæður til leitar erfiðar. Gert er ráð fyrir því að hægt verði að nota þyrluna mun meira við leitina í dag. Komin er hitamyndavél frá Akureyri en hún verður sett í þyrluna til að aðstoða við leitina.
Snjóflóðahætta á svæðinu var skoðuð í gærkvöldi og í nótt og var hún metin nokkur. „Leitarmenn eru meðvitaðir um það og haga leit samkvæmt því og hópar eru með snjóflóðaýlur og annað á sér,“ segir Þorsteinn.