Rjúpnaskyttan fundin

Aðstæður til leitar voru erfiðar í gær en veður var …
Aðstæður til leitar voru erfiðar í gær en veður var mun betra í dag. Ljós­mynd/​Land­helg­is­gæsl­an

Rjúpnaskyttan sem björgunarsveitir hafa leitað frá því á föstudag er fundin, heil á húfi. Björgunarsveitarmenn á vélsleðum fundu manninn þar sem hann var á gangi ásamt hundi sínum á austanverðum Ketilsstaðahálsi um kl. 10 í morgun.

Hlúð var að manninum á staðnum þar til þyrla Landhelgisgæslunnar kom og flutti hann til byggða.

Eins og fram kom í morgun var aðaláhersla lögð á svæðið frá Einarsstöðum og norður. Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sagði að vélsleðar hefðu verið sendir upp á hálsinn til að kanna þær slóðir enn betur og aftur. „Þá sáu þeir hann bara á labbi með hundinn sinn,“ sagði Þorsteinn.

Maðurinn var vel á sig kominn miðað við að hann hefur verið úti síðan á föstudag en honum var svolítið kalt. „En að öðru leyti virðist hann hafa það fínt. Hann var vel búinn og vel klæddur ungur maður,“ sagði Þorsteinn og bætti við að þetta hefði verið vanur fjallamaður í góðu formi sem hefði ugglaust kunnað að bregðast við aðstæður sem þessum.

Leit stóð yfir frá því á föstudagskvöld en alls tóku 440 björgunarsveitarmenn þátt í leitinni með einum eða öðrum hætti.

Uppfært kl. 12.26:

mbl.is hefur borist tilkynning frá lögreglunni á Austurlandi.

„Frá því á föstudaginn 18. 11. s.l. og þar til í morgun stóð yfir leit að rjúpnaskyttu á Fljótsdalshéraði. Hann var við veiðar ásamt tveimur félögum sínum þegar leiðir þeirra skyldu. Hann kom síðan ekki fram eins og til stóð. Um kl. 19:00 höfðu félagar hans samband við lögreglu og tilkynntu um að hans væri saknað og að hann væri með Labrador hund með sér. Þá þegar setti lögreglan og Landsbjörg í gang leit að manninum. Fengin var aðstoð frá landhelgisgæslunni sem sendi þyrlu á svæðið. Vegna veður og skyggnis var takmarkað hægt að nota þyrluna á laugardeginum. Leit stóð síðan yfir allt þar til rúmlega 10:15 í morgun að björgunarsveitarmenn á vélsleðum fundu manninn á mel í nágrenni við Sauðá. Þyrlan sótti síðan manninn og þurfti að hífa hann um borð og  björgunarsveitarmenn fluttu hundinn til byggða. Allt að 440 aðilar komu að þessari leit með einum eða öðrum hætti og þar á meðal frá allflestum björgunarsveitum landsins. Aðstæður við leit voru mjög erfiðar en mikið bætti í snjó frá því um miðjan dag á föstudegi og þar til maðurinn fannst.  Embætti lögreglustjórans á Austurlandi þakkar öllum framangreindum viðbragðsaðilum fyrir framlag þeirra í þessari aðgerð.“

Björgunarsveitarmenn fóru yfir stöðuna í nótt.
Björgunarsveitarmenn fóru yfir stöðuna í nótt. Ljósmynd/Landsbjörg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert