Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, ræddi við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, í gærkvöldi um stöðu mála í stjórnarmyndunarviðræðum.
„Ég náði í hann seint í gærkvöldi og upplýsti hann í síma um stöðu mála,“ sagði Katrín í samtali við Í bítið á Bylgjunni. „Ég held honum upplýstum og auðvitað áttum við okkur á því að það er ekki endalaus tími,“ sagði hún spurð hvort tímapressa væri fyrir hendi.
„Það skiptir máli að vinna hratt en það má heldur ekki gleyma því að það þarf að vinna vel.“
Formlegar viðræður á milli Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar, Pírata, Viðreisnar og Samfylkingarinnar hefjast á nefndarsviði Alþingis klukkan 13 í dag. Þar munu málefnahópar flokkanna funda en fram að þeim fundi munu flokkarnir undirbúa sig hver í sínu lagi.
Frétt mbl.is: Samþykkja formlegar viðræður