MS lýsir ánægju með niðurstöðuna

Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar.
Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar. mbl.is/Styrmir Kári

Mjólkursamsalan lýsir yfir ánægju yfir því að áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafi farið vel í saumana á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og í kjölfarið fellt niður 440 milljóna króna sekt. Þannig hafi áfrýjunarnefndin staðfest að samstarf fyrirtækisins við tengda aðila hafi verið í fullu samræmi við lög. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mjólkursamsölunni. Segir þar að Samkeppniseftirlitið hafi ekki gefið samspili samkeppnislaga og búvörulaga nægilegan gaum við rannsókn sína.

Frétt mbl.is: Sektin lækkuð úr 480 í 40 milljónir

Ítrekar Mjólkursamsalan að samkvæmt lögum sé hluti af starfsemi mjólkuriðnaðarins undanþeginn afmörkuðum ákvæðum samkeppnislaga. Það sé gert til að lækka kostnað við framleiðslu mjólkurafurða. Segir fyrirtækið að skipulag starfsemi þess og tengdra aðila hafi grundvallast á þessu.

40 milljóna sekt var sett á Mjólkursöluna vegna þess að fyrirtækið afhenti ekki Samkeppniseftirlitinu ákveðin gögn í málinu. Segir í tilkynningu Mjólkursamsölunnar að fyrirtækið hafi engan hag haft af því, heldur þvert á móti. „Þá skal það áréttað að MS veitti ekki á nokkru stigi rangar upplýsingar heldur láðist að leggja fram tiltekinn samning, sem margoft var þó vísað til á fyrri stigum málsins,“ segir í tilkynningunni, sem undirituð er af Ara Edwald, forstjóra Mjólkursamsölunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka