Náttúruverndarsamtökin Landvernd og Fjöregg hafa lagt fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í annað sinn vegna framkvæmdaleyfis fyrir Kröflulínu 4 sem Skútustaðahreppur veitti Landsneti í lok október.
Frétt mbl.is: Landvernd getur kært í annað sinn
„Þarna er enn um að ræða að það hefur ekki farið fram umhverfismat á jarðstrengjum sem liggja annars staðar en í gegnum þetta viðkvæma Leirhnjúkssvæði,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, spurður út í ákvörðunina.
„Við höfum líka gert athugasemdir við meðferð málsins hvað varðar víðerni á svæði, þar með talið í Bóndhólshrauni.“
Meirihluti sveitarstjórnar Skútustaðarhrepps samþykkti 26. október að veita Landsneti nýtt framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4, 22o kV háspennulínu. Frestur til að kæra úrskurðinn var einn mánuður.
Frétt mbl.is: Ný framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4
Landsnet sótti fyrst um framkvæmdaleyfi í mars sem Skútustaðahreppur veitti. Landvernd kærði þann úrskurð og í framhaldinu felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála leyfið úr gildi.
Frétt mbl.is: Verða að umhverfismeta jarðstrengi
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkti 10. nóvember síðastliðinn umsókn Landsnets vegna framkvæmda við Þeistareykjalínu 1. Aðspurður segir Guðmundur Ingi að Landvernd sé að athuga forsendurnar fyrir því að kæra þá ákvörðun einnig til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Frestur til að kæra hana er einnig einn mánuður.
Frétt mbl.is: Nýtt leyfi fyrir Þeistareykjalínu 1