Skipti sköpum að hafa hundinn

Friðrik Rúnar segist vera viss um að hann hefði ekki …
Friðrik Rúnar segist vera viss um að hann hefði ekki lifað af aðra nótt. Skjáskot/RÚV

Það skipti sköpum að hafa hundinn með sér í för, sagði Friðrik Rúnar Garðarsson, rjúpnaskyttan sem um 440 manns leituðu að frá því átta á föstudagskvöld fram til tíu á sunnudagsmorgun. „Þetta var önnur lífvera, vinur minn og hann hélt á mér hita,“ sagði Friðrik Rúnar í viðtali við Kastljós RÚV nú í kvöld.

Friðrik Rúnar segist hafa mætt til veiða ágætlega búinn, en án staðsetningar- og fjarskiptabúnaðar. „Sem er algjört glapræði,“ segir hann. Hann og félagar hans tveir sem voru með í för hafi við upphaf veiða ákveðið að ganga saman ákveðna hlíð og hann hafi verið þeirra nyrstur. „Veðrið tók síðan að versna upp úr eitt og um tvö, hálfþrjú var ég lentur í mjög slæmu veðri.“

Þá fattaði ég að ég væri villtur

Hann hélt sig þá vera að koma Einarsstaðamegin en sá svo að svo var ekki. „Þá fattaði ég að ég var staðsettur allt annars staðar og að ég væri villtur.“ Hann gróf sig síðan í tvígang í skafl um nóttina ásamt hundinum.

Friðrik Rúnar segir að eftir á að hyggja hafi það verið mistök hjá sér á laugardeginum að eyða mikilli orku í að reyna að komast með ánum niður á láglendi. Við þær tilraunir lenti hann ítrekað á nesjum þar sem árnar höfðu grafist það djúpt niður að þær lágu um brött gil.

„Það var stanslaus vindur, skafrenningur og úrkoma á laugardeginum. Þetta var bara hvítur geimur þar sem stöku sinnum grillti í grjót,“ segir Friðrik Rúnar. Sér hafi þó ekki verið orðið kalt nema á höndunum, en hann hafi vissulega verið orðinn þreyttur.

Skrýtnustu stundirnar í snjóbyrginu

„Það voru skrýtnustu stundirnar í snjóbyrginu, tímaskynið fór og ég fór í svona „survival mode“,“ segir hann og kveður myrkur hafa verið í 15 tíma á sólarhring. Hann hafi leitt hugann að ýmsu, en ekki örvænt. „Ég hélt áfram að hugsa hvað ég þyrfti að gera til að lifa af,“ segir Friðrik Rúnar.

Seinni nóttina gróf Friðrik Rúnar sig inn í stóra snjóöldu og þar voru þeir hundurinn búnir að vera í um einn og hálfan tíma þegar hrundi yfir hana og holan fylltist af snjó. „Það grillti í smá bil og ég gat troðið hundinum í gegn og skriðið síðan sjálfur út á eftir,“ segir hann.

Þá nótt grillti loks í stjörnur á himni og næsta dag var veðrið orðið betra. Þá notaði hann byssuna fyrir göngustaf til að komast á hæsta punkt svo hann gæti séð hvar hann væri staddur. „Það tók mig langan tíma að klöngrast yfir snjóbreiðu og ég skreið síðustu skrefin til að komast upp á hólinn.“

Hefði ekki lifað af aðra nótt úti

Er þangað var komið gat hann séð niður í Fagradal og hvaða leið hann þyrfti að fara, en leist ekki vel á. „Þannig að ég var hugsa að ég þyrfti bara að bíða þar sem ég var. Ég var hins vegar ekki búinn að vera þar nema í mesta lagi í fimm mínútur þegar ég sá ljósin,“ segir hann og vísar þar til ljósa björgunarsveitarmannanna. „Þá vissi ég vissi að nú væri búið að bjarga mér.“

Friðrik Rúnar kveðst líka vera viss um að hann hefði ekki lifað af aðra nótt úti. „Ég var að örmagnast og var að spara við mig matinn. Ég átti eftir lúkufylli eftir af hnetum og hálfa flatköku og var búinn að vera að bræða snjó í flösku sem ég var með.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert