Aukin útgjöld í ríkisútgjaldaáætlun vegna samgöngumála þrengja stöðu flokkanna fimm sem nú eiga í stjórnarmyndunarviðræðum til að hefja þá uppbyggingu sem þeir hafa hug á. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í samtali við mbl.is.
Katrín nefndi í fréttum sjónvarpsstöðvanna fyrr í kvöld að staðan í ríkisfjármálum væri þrengri en þau hefðu talið. Aðspurð segist hún þar eiga við viðbætur við ríkisútgjaldaáætlun. „Það eru tiltekin útgjöld sem var búið að gera ráð fyrir í ríkisútgjaldaáætlun sem bættust við,“ segir hún og nefnir samgöngumálin sem dæmi. „Það urðu töluverðar viðbætur við samgöngumál í meðförum þingsins.“
Katrín segir alla flokkana hafa lofað uppbyggingu í heilbrigðismálum. „Allir voru sammála um heilbrigðismálin, enda hefur verið mjög rík krafa uppi um þau frá stórum hluta landsmanna.“
Þau telji þó einnig grundvallaratriði að halda jafnvægi í ríkisfjármálum og því sé kannski ekki mikið svigrúm til uppbyggingar nema búið sé að ákveða fyrir fram hvernig eigi að afla teknanna. „Við teljum mikilvægt að það sé skilgreint fyrir fram hvernig við ætlum að afla tekna til þessarar uppbyggingar. Fólk er ekkert alveg sammála um hvaða leiðir er rétt að fara í því og það er eitthvað sem við þurfum að lenda ef þetta á að takast.“