Formenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Pírata, Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Samfylkingarinnar munu funda í fyrramálið til að fara yfir hvaða mál þarfnist frekari viðræðna í stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í samtali við mbl.is.
„Dagurinn í dag fór svolítið í þessa málefnahópa. Formennirnir funduðu og fóru yfir tiltekin mál sem komu úr hópunum,“ sagði Katrín og kvað umræðu um engan málaflokk vera enn lokið. „Það liggur fyrir að formenn flokkanna munu hittast í fyrramálið klukkan tíu og fara yfir hvað við teljum að þurfi að ræða sérstaklega,“ bætir hún við.
„Að þeim fundi loknum þá erum við komin á þann stað að við þurfum að taka á stóru málunum.“
Til þess kunni að koma að einhverjir málefnahópanna fjögurra, sem ekki hafi verið búnir með sitt, muni funda meira. „Aðalmálið á morgun verða þó fundarhöld formannanna og svo væntanlega þingflokkanna líka til að fara yfir stöðuna.“
Katrín segir að það muni skýrast á næstu dögum hvort farið verði í að semja stjórnarsáttmála. „Það var fundað í dag um stöðu efnahags- og ríkisfjármála. Það var líka fundað um stöðu sjávarútvegsmála og þar voru menn að færast nær í umræðunni sýndist mér.
Það fer að koma að því að fólk þarf að ákveða hvort úr þessu verður,“ bætti hún við og segir ákvörðun verða tekna fyrir helgi.
„Ég upplýsti forsetann á sunnudagskvöld um að þessar formlegu viðræður myndu fara í gang og ég mun svo upplýsa hann seinni hluta vikunnar um stöðu mála.“