„Ævilöng skuldbinding um að vera ábyrgari“

Friðrik ásamt sínum trygga vini til margra ára, Mola. Þeir …
Friðrik ásamt sínum trygga vini til margra ára, Mola. Þeir hafa ekki sést síðan á sunnudag er Friðriki var bjargað um borð í þyrlu Gæslunnar. Ljósmynd úr einkasafni

„Atburðarás undanfarinna daga míns lífs hefur verið svo margbrotin að ég er rétt nýfarinn að átta mig á umfanginu,“ skrifar Friðrik Rúnar Garðarsson, rjúpnaskyttan sem var heimt úr helju um helgina, í einlægri færslu á Facebook-síðu sina.

„Eitt var að villast frá vinum sínum og þurfa að hafast við utan dyra í tvær nætur í vetrarhörkum á fjöllum en annað að verða þess áskynja eftir á hver áhrifin voru á félaga mína, vini, fjölskyldu; og í einhverjum skilningi samfélagið allt.“

Friðrik segist nú þegar hafa fengið gott tækifæri til að koma frásögn af upplifun sinni af þeirri reynslu að vera týndur á fjöllum á framfæri en í færslunni fer hann yfir nokkur atriði sem honum finnst „rísa hærra og hærra upp úr ólgandi iðunni eftir því sem lengra frá líður.“

Hann segist hafa fengið um þúsund kveðjur og orðsendingar og hafi ekki enn komist í það að skoða þær allar. 

„Við ykkur fólkið sem þekkir mig og ég er kær vil ég segja að mér finnst afleitt að hafa kallað yfir ykkur þá angist og óvissukvöl sem því fylgdi að ég skildi týnast og vera saknað í svo langan tíma. Það er auðvitað ekki nokkur leið fyrir mig að bæta ykkur fyrir og því finnst mér hafa verið lögð á herðar mér ævilöng skuldbinding um að vera ábyrgari, áreiðanlegri, betri og „gjafmildari“ maður í tengslalegu tilliti en ég hef séð mér fært að vera hingað til í samskiptum mínum við margt samferðafólk mitt.“

Þakklátur bjargvættunum

Leitin að Friðriki hófst á föstudagskvöld. Yfir 400 manns komu í heildina að því verkefni, aðallega björgunarsveitarfólk. „Ég vildi óska ég gæti með einhverjum hætti tjáð eða túlkað hversu þakklátur ég er ykkur, bjargvættunum sem ég á líf mitt að launa. Ég vona einnig að ég eigi eftir að hitta þá vösku vélsleðagarpa sem brutust í erfiðum skilyrðum upp á fjallið og fundu mig til að þakka þeim lífbjörgina.“

Gagnrýnir fjölmiðla

Friðrik gagnrýnir í pistli sínum það sem hann kallar aðgangshörku fjölmiðla við og eftir komu hans á Landspítalann en þangað var hann fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Hann segist ekki hafa leitt hugann að því fyrr en eftir á hversu óviðeigandi það hafi verið að fjölmiðlamenn hafi stillt sér upp við þyrlupallinn og tekið „nærmyndir af því þegar tilfinningaþrungnir endurfundir áttu sér stað hvort sem ég var að knúsa mömmu mína og systur eða kyssa kærustuna,“ skrifar Friðrik.

Friðrik Rúnar er þakklátur lífsbjörginni og að hafa fengið annað …
Friðrik Rúnar er þakklátur lífsbjörginni og að hafa fengið annað tækifæri til að lifa. Skjáskot/RÚV

Hann segist hafa reynt að bera sig vel og að svara spurningum eftir bestu vitund „en mér finnast mörk fjölmiðla hljóta að eiga að liggja utan við formlega læknismeðferð eftir svona hrakningar og að fjölskyldur megi sameinast á ný án þess að það sé myndefni frétta.“

Friðrik beinir svo orðum sínum til annarra veiðimanna og viðurkennir að hann hafi brugðist í ýmsum grundvallaratriðum. „Þótt í því felist engin afsökun þá vill oft verða svo þegar maður er staddur á kunnuglegum slóðum með sínum föstu veiðifélögum að kæruleysisþröskuldurinn lækkar og öryggið ekki í þeim hávegum haft sem því ber.“

Flestir með allt á hreinu

Hann segir mikilvægt að þeir sem ekki stundi veiðar átti sig á því að veiðimenn eru upp til hópa með öryggismál í lagi.

Í lok pistilsins víkur Friðrik orðum sínum að hundinum sínum, honum Mola, sem var honum við hlið allan tímann eftir að hann villtist. „Ég veit að ég hefði ekki lifað þetta af án hans. Hann fylgdi mér eins og skugginn allan daginn og kúrði hjá mér í snjónum á nóttunni. Ég varð viðskila við hann á melnum þar sem ég var hífður um borð í þyrluna og hef ekki séð hann síðan nema bara í sjónvarpinu. Að vísu hefur ekki væst um hann þar sem hann er niðurkominn og ég veit að hann er í góðu yfirlæti.“

Friðrik lýkur svo pistli sínum á eftirfarandi orðum: 

„Með gleði og þakklæti yfir enn einu tækifærinu til að halda áfram að lifa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert