Umhverfisstofnun hefur á síðustu dögum borist fjöldi ábendinga, annarsvegar um reyk frá kísilverksmiðjunni í Helguvík og hinsvegar um viðvarandi brunalykt. Fulltrúar stofnunarinnar hafa verið í sambandi við fyrirtækið til að fá nánari upplýsingar og hafa tvívegis á síðustu dögum farið í fyrirvaralaust eftirlit í verksmiðjuna til að fá betri og nákvæmari upplýsingar og einnig til að staðfesta umrædda lykt eða reyklosun. Þetta kemur fram á vef Umhverfisstofnunar.
Aðfaranótt 11.nóvember var kísilverksmiðja Sameinaðs Sílikons hf. (United Silicon) í Helguvík gangsett, en um er að ræða fyrstu verksmiðju þessarar tegundar sem sett er upp á Íslandi. Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfi fyrir verksmiðjuna í október 2014 og fer með eftirlit með starfsemi hennar.
Frétt mbl.is: Fyrsta kísilmálmverksmiðjan
„Fyrirtækið er í byrjunarfasa og búnaður er enn í prófun. Skýringar á þeim reyk sem sést hefur má rekja til þess að enn er verið að finna réttar stýringar á afsogi frá ofnum og reykhreinsibúnaði. Lyktin stafar fyrst og fremst af ófullkomnum bruna á lífrænum efnum (timburflís) þar sem ofninn er enn ekki komin á það stig að vera komin í jafnvægi og ná því hitastigi þar sem von er á að lyktin eyðist.
Loftgæðamælar umhverfis verksmiðjuna eru þrír og er staðsetning þeirra ákveðin út frá loftdreifilíkönum og vindlíkani (vindrósum) með það að markmiði að fanga örugglega þau mengunarefni sem berast frá starfseminni,“ segir á vef Umhverfisstofnunar.
Hægt er að fylgjast með loftgæðamælingum í rauntíma á heimasíðu orkurannsókna Keilis Umhverfisstofnun fylgist vel með umræddum mælingum og frá því að verksmiðjan fór í gang hafa mælingar á mengunarefnum aldrei farið yfir skilgreind viðmiðunarmörk vegna heilsuverndar manna.