Fundi forsvarsmanna flokkanna fimm sem eru í stjórnarmyndunarviðræðum lauk fyrir skömmu. Smári McCarthy, pírati, segir að fundurinn hafi gengið ágætlega, en aftur verður fundað klukkan 16 í dag.
„Það er margt sem á eftir að komast að endanlegri niðurstöðu í og þetta er vinna sem mun halda áfram á næstu dögum. Hingað til hef ég verið mjög jákvæður og niðurstöðurnar hafa verið góðar,“ sagði Smári.
„Nú þarf að taka ýmsar ákvarðanir og það verður gert á næstu tímum og svo verður áframhaldandi vinna.“
Frétt mbl.is: Staðan tugum milljarða þrengri
Smári kveðst vera mjög bjartsýnn fyrir áframhaldinu. „Það hafa komið upp flóknari mál en önnur síðustu daga en við höfum unnið úr þeim í góðri sátt. Á meðan það heldur áfram verður niðurstaðan góð.“
„Við ræddum málin og svo tölum við við okkar fólk í framhaldinu og ætlum að hittast aftur seinnipartinn,“ sagði Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, að fundinum loknum. „Það verður vonandi fundur þar sem hlutirnir skýrast dálítið vel.“
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, vildi ekkert tjá sig við blaðamann um niðurstöðu fundarins.