Pétur á Útvarpi Sögu ákærður fyrir hatursorðræðu

Pétur Gunnlaugsson, útvarpsmaður á Útvarpi Sögu.
Pétur Gunnlaugsson, útvarpsmaður á Útvarpi Sögu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ákært Pétur Gunnlaugsson, lögmann og útvarpsmann á Útvarpi Sögu, fyrir hatursorðræðu og útbreiðslu haturs með því að hafa í samræðum við hlustendur stöðvarinnar látið ummæli falla sem voru hatursfull í garð samkynhneigðra. Þetta staðfesta bæði Pétur og Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri stöðvarinnar, í samtali við mbl.is, en Pétur greindi frá málinu í þætti sínum á útvarpsstöðinni fyrr í dag.

Málið á rætur sínar að rekja til þess að 20. apríl í fyrra var tilkynnt að hinsegin fræðsla yrði hluti af kennsluefni grunnskóla í Hafnarfirði. Í kjölfarið urðu talsverðar umræður um málið í símatíma á Útvarpi Sögu. Hringdu hlustendur inn sem höfðu skoðanir um málið og féllu á þeim tíma þau ummæli sem ákært er fyrir.

Pétur segir að hann sé mjög ósáttur við að vera sakaður um hatursorðræðu sem hann hafi ekki gerst sekur um. Rifjar hann upp að upphaflega hafi Samtökin 78 kært málið til lögreglu sem hafi vísað málinu frá. Síðar hafi málið farið til ríkissaksóknara sem hafi farið fram á sakamálarannsókn og niðurstaða þess sé nú þessi ákæra.

Segir Pétur að hann hafi bara verið að hlusta á það sem hlustendur stöðvarinnar hefðu að segja og að hann hafi ekki útilokað viðhorf þeirra sem hringdu inn. „Ég ber ekki ábyrgð á því sem hlustendur segja,“ segir Pétur. Telur hann ákæruna vera einsdæmi gegn fjölmiðlafólki og vegi að tjáningarfrelsi fjölmiðlamanna.Telur hann vinnubrögð lögreglunnar í málinu óvönduð.

Arnþrúður segir að ákært sé fyrir 233. grein a í almennum hegningarlögum. Er þar lagt bann við hatursorðræðu og eru viðurlög allt að tveimur árum fyrir brot: [233. gr. a. Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða sæti sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 2 árum.]

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka