Krakkarnir tóku við helgihaldinu

„Ég held að það myndu koma miklu fleiri krakkar í messuna ef messan væri gerð af krökkum,“ segir Helga Margrét Ólafsdóttir eftir tilraun sem gerð var í Vídalínskirkju um síðustu helgi þar sem krakkar í fermingarfræðslunni fengu að stjórna efnistökum messunnar þar sem Frikki Dór og Jóhanna Guðrún sungu, Ólafur Stefánsson hélt fyrirlestur og krakkarnir dönsuðu. 

„Þótt við séum krakkar eigum við alveg skilið að fá eitthvað sem við getum notið þess að horfa á í kirkjunni, þetta á ekki bara að vera fyrir fullorðna sem koma til að hlusta á bænir,“ segir hún enn fremur en troðfullt var í kirkjunni og þurfti að bæta við sætum til að allir gestirnir sem voru um 400 talsins gætu fengið sér sæti.  

Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Garðabæ og Álftanesi, segir vel koma til greina að endurtaka messuna sem var kölluð óskamessa þar sem krakkarnir funduðu og komu með tillögur um hvernig þau vildu hafa helgihaldið. Það sem hafi þó komið sér á óvart var að þau vildu ekki sleppa bænastundinnni en fengu þó að haga henni eftir eigin höfði.

Hér fyrir neðan má sjá kynningarmyndband sem krakkarnir gerðu fyrir viðburðinn. 

Í myndskeiðinu fyrir ofan er sýnt frá messunni og rætt við nokkra krakka og Jónu Hrönn um hvernig til tókst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert