Lánið veitt án fullnægjandi trygginga

Lárus Welding var sakfelldur í dag og bætist eitt ár …
Lárus Welding var sakfelldur í dag og bætist eitt ár við þau fimm ár sem hann hefur áður fengið í Stím-málinu. Árni Sæberg

Sex milljarða lán Glitnis til einkahlutafélagsins FS38, sem var eignalaust félag með takmarkaða ábyrgð, til kaupa á bréfum í skartgripafélaginu Aurum Holding var án fullnægjandi trygginga og ekkert hald er í þeirri vörn að bankinn hafi verið betur staddur eftir lánveitinguna. Þetta er niðurstaða héraðsdóms í Aurum-málinu svokallaða, en tveir fyrrverandi starfsmenn bankans, þeir Lárus Welding og Magnús Arnar Arngrímsson, voru sakfelldir fyrir umboðssvik í málinu og dæmdir til fangelsisvistar.

Lánið var veitt til að fjármagna kaup FS38 á 25,7% hlut í Aurum Holding limited, sem var óskráð skartgripafyrirtæki í Bretlandi. Voru 2,8 millj­arðar af lán­inu notaðir í upp­greiðslu láns Fons við Glitni, tveir millj­arðar fóru á reikn­ing Fons og 1,2 millj­arðar á hand­veðsett­an reikn­ing Fons til að bæta trygg­ing­astöðu fé­lags­ins við Glitni. Af tveggja milljarða upphæðinni rann svo einn milljarður til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem var sýknaður í málinu fyrir hlutdeild að brotunum.

Dómurinn í heild sinni á vef héraðsdóms

Bréfin í Aurum höfðu verið í eigu fjárfestingafélagsins Fons en voru sem fyrr segir seld til FS38 sem var dótturfélag Fons. Í dómnum er tekið fram að bankinn hafi áður getað gengið að eignum Fons og áhættan hafi því verið meiri af lánveitingunni til FS38 í ljósi eignastöðu félagsins og áhættuflokkun.

Veitt án fullnægjandi trygginga

„Ekki voru aðrar tryggingar fyrir láninu en veð í hlutabréfunum í Aurum auk ábyrgðar Fons hf. að fjárhæð 1,75 milljarðar króna sem skyldi vera tímabundin þar til verðgildi hlutabréfanna hækkaði. Var lánið því veitt án fullnægjandi trygginga og er ekki hald í þeirri vörn ákærðu að bankinn hafi verið betur staddur eftir lánveitinguna en fyrir,“ segir í dómnum.

Samkvæmt þessu segir í dómnum að Lárusi og Magnúsi Arnari hafi verið ljóst eða hlotið að vera ljóst að þeir „stefndu miklum fjármunum bankans í verulega hættu.“

Verjendur ákærðu í málinu við dómsuppkvaðningu í dag.
Verjendur ákærðu í málinu við dómsuppkvaðningu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Engin gögn eða framburður um hlutdeild Jóns Ásgeirs

Þeir Jón Ásgeir Jóhannesson og Bjarni Jóhannsson, fyrrverandi viðskiptastjóri hjá bankanum, voru einnig ákærðir fyrir hlutdeild í málinu en báðir sýknaðir.

Í dóminum segir að það liggi fyrir að Jón Ásgeir hafi lagt fram hugmyndir um fjármögnun viðskiptanna og að hann hafi verið í beinu sambandi við Lárus og Bjarna vegna þeirra. „Af þeim gögnum er skýrt að ákærði Jón Ásgeir þrýsti á um að lánið yrði veitt og lagði á ráðin um það með meðákærðu. Hins vegar eru engin gögn eða framburður til sönnunar því að ráðagerðir ákærða Jóns hafi beinst að þeirri háttsemi sem ákærðu Lárus og Magnús Arnar hafa verið sakfelldir fyrir,“ segir í dómnum.

Mátti standa í trú um að ákvörðunin væri tekin eftir réttum leiðum

Þannig hafi Jón Ásgeir ekki komið að viðskiptunum sem fyrirsvarsmaður FS38 eða Fons, heldur fyrir Baug Group sem hafi verið stærsti hluthafi Aurum. Segir í dómnum að ljóst sé að Jón Ásgeir hafi notið hagsmuna af lánveitingunni í formi 1 milljarðs sem hafi verið millifærður á hann frá Fons. „Þrátt fyrir framangreind afskipti hans mátti hann, að öðru óreyndu, standa í þeirri trú að ákvörðun forráðamanna bankans um lánveitinguna yrði tekin eftir formlega réttum leiðum,“ segir í dómnum.

Telur dómurinn að þótt Jóni Ásgeiri hafi mátt vera ljóst um fjártjónsáhættu bankans vegna lánsins geri það hann ekki að hlutdeildarmanni. „Ekkert er komið fram um að honum hafi verið kunnugt um að það hafi ekki verið gert að því leyti sem að framan greinir. Það eitt að honum hafi mátt vera ljós sú verulega fjártjónshætta sem lánveitingin olli Glitni banka hf. eða að hann hafi tekið við hluta af lánsfénu vitandi um þá hættu nægir ekki til að gera hann að hlutdeildarmanni í broti ákærðu Lárusar og Magnúsar Arnars gegn 249. gr. almennra hegningarlaga,“ en 249. greinin er umboðssvikaákvæði hegningarlaga.

Jón Ásgeir Jóhannesson og Bjarni Jóhannesson voru báðir sýknaðir í …
Jón Ásgeir Jóhannesson og Bjarni Jóhannesson voru báðir sýknaðir í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Lárus kominn í hámarkið

Í tilviki Bjarna segir að ekkert hafi komið fram fyrir dóminum eða í gögnum málsins um að hann „hafi á einhvern hátt stuðlað að lánveitingunni með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt.“ Er hann því sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins.

Lárus hefur áður hlotið 5 ára dóm í Stím-málinu svokallaða í héraðsdómi og bætist 1 árs dómur hans núna við sem hegningarauki. Er hann þar með kominn í hámark sem hægt er að dæma menn fyrir í fjármagnsbrotum. Magnús Arnar hefur áður hlotið 2 ára dóm í Hæstarétti í svokölluðu BK-44 máli. Með dóminum í dag bætast því 2 ár við dóm hans. Jón Ásgeir og Bjarni hafa ekki hlotið dóma í öðrum málum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert