Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis var dæmdur í eins árs fangelsi fyrir þátt sinn í Aurum-málinu svokallaða. Jón Ásgeir Jóhannesson var aftur á móti sýknaður í málinu. Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, var dæmdur í tveggja ára fangelsi og Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri hjá bankanum var sýknaður.
Enginn fjórmenninganna var viðstaddur dómsuppkvaðninguna í dag.
Málið er höfðað gegn Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, Magnúsi Arnari Arngrímssynii, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, sem var einn aðaleigenda bankans, og Bjarna Jóhannessyni, fyrrverandi viðskiptastjóra Glitnis banka.
Í málinu var Jón Ásgeir ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum Lárusar og Magnúsar Arnars en til vara fyrir hylmingu og til þrautavara fyrir peningaþvætti og fyrir að hafa á árinu 2008 í krafti áhrifa sinna í Glitni beitt Lárus og Bjarna fortölum og þrýstingi og hvatt til þess, persónulega og með liðsinni Jóns Sigurðssonar, varaformanns stjórnar Glitnis Banka hf., og Gunnars Sigurðssonar, forstjóra Baugs Group, að Lárus og Magnús Arnar samþykktu að veita félaginu FS38 ehf. 6 milljarða króna lán frá Glitni, honum sjálfum og Fons til hagsbóta.
Þetta er í annað skiptið sem dæmt er í málinu í héraðsdómi, en áður hafði aðalmeðferð farið fram á fyrri hluta ársins 2014. Voru þá allir ákærðu sýknaðir.
Í apríl 2015 var sá dómur aftur á móti ógildur af Hæstarétti vegna þess að ummæli sérfróðs meðdómara í málinu voru talin gefa tilefni til þess að draga í efa að hann hafi verið óhlutdrægur í garð ákæruvaldsins fyrir uppkvaðningu dómsins. Dómarinn er einnig bróðir athafnarmannsins Ólafs Ólafssonar sem áður hafði verið sakfelldur í dómsmáli sérstaks saksóknara.
Var í kjölfarið öllum dómurum málsins skipt út og hófst aðalmeðferð á ný núna í haust.
Þá var Lárus Welding dæmdur til að greiða 10,3 milljónir króna í málskostnað auk útlagðs kostnaðar. Magnús var dæmdur til að greiða 8,2 milljónir í málskostnað.
Þá var ríkissjóður dæmdur til að greiða 13,9 milljónir í málskostnað vegna sýknu Jóns Ásgeirs og 9,4 milljónir vegna sýknu Bjarna.