Á fjórða tug kvartana

Vel á fjórða tug ábendinga og kvartana hafa borist Umhverfisstofnun undanfarna daga vegna lykt- og rykmengunar frá kísilverinu í Helguvík. Þá hefur Umhverfisstofnun upplýsingar um að a.m.k. einn einstaklingur hafi leitað til læknis vegna einkenna sem kunna að tengjast loftmengun á svæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjanesbæ en í gær ályktaði bæjarráð vegna áhyggja af lykt og rykmengunar frá kísilveri United Silicon í Helguvík.

Óskað hefur verið eftir fulltrúa frá Umhverfisstofnun vegna málsins á næsta bæjarráðsfund, 1. desember. Fulltrúi frá stofnuninni mun mæta á bæjarráðsfund. 

Fulltrúar frá Umhverfisstofnun munu mæta á fund bæjarráðs í næstu viku þar sem leitast verður við að svara þeim spurningum og vangaveltum sem munu berast þeim frá bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ, að sögn Sigrúnar Ágústsdóttur, sviðsstjóra hjá Umhverfisstofnun.

Hún hvetur íbúa bæjarins til að láta í sér heyra svo hægt sé að fá góða yfirsýn yfir málið. 

United Silicon birti yfirlýsingu í Víkurfréttum í gær þar sem leitast er við að svara kvörtunum íbúa sem hafa verið áberandi á samfélagsmiðlum undanfarna daga. Þar kemur fram að brenna hafi þurft mikið magn af timbri til að baka rafskaut brennsluofnsins og að hvorki reykurinn, sem kom vegna þess að reykhreinsivirki verksmiðjunnar var ekki notað, né lyktin sé skaðlegri en frá brennu á gamlárskvöld. Þetta hafi verið áður en verksmiðjan fór í gang og ætti því að vera úr sögunni nú þegar framleiðsla sé hafin, segir enn fremur í tilkynningu frá Reykjanesbæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert