Sex tíma þrif eftir vegablæðingar

Það tók sex klukkustundir fyrir tvo menn að þrífa bílinn …
Það tók sex klukkustundir fyrir tvo menn að þrífa bílinn eftir að hafa keyrt í gegnum blæðingakaflann. Mynd/Grétar Viðarsson

Talsverðar blæðingar á slitlagi urðu í gær á vegakaflanum sunnan megin á Holtavörðuheiði og niður í Borgarfjörð. Safnaðist talsverð tjara saman á bílum sem keyrðu vegkaflann og segir eigandi flutningafyrirtækis að sex tíma hafi tekið að þrífa bíl fyrirtækisins sem fór þar um. Hann spyr hvar ábyrgð Vegagerðarinnar sé í málinu, enda fari tjaran mjög illa með bílana og skapi hættu þegar hún festist við dekk á bílum sem keyra þar sem hálka er.

Verður grjóthart ef þetta er ekki hreinsað af strax

Grétar Viðarsson rekur fyrirtækið Ekja á Akureyri. Hann rekur fimm flutningabíla sem keyra milli Akureyrar og Reykjavíkur. Í gær keyrði einn bíll frá honum umræddan kafla og segir Grétar að tjaran hafi sest utan á bílinn, á raflagnir, dekk og fjöðrunarbúnað bílsins. „Þetta er heljarinnar vinna að þrífa þetta. Verður grjóthart ef þetta er ekki hreinsað af strax,“ segir Grétar, en hann og samstarfsmaður hans voru í sex tíma í nótt að þrífa tjöruna af bílnum.

Tjaran sest á bílana þegar þeir keyra í gegnum vegkafla …
Tjaran sest á bílana þegar þeir keyra í gegnum vegkafla þar sem blæðir. Mynd/Grétar Viðarsson

Þá segir hann að blæðingar sem þessar séu stórhættulegar. Þegar tjaran setjist á dekkin verði þau svo gott sem slétt og þar af leiðandi sé lítið grip þegar komið sé á vegi þar sem hálka sé.

Hann segir talsverða umræðu um þetta hafa skapast á Facebook-síðu sem flutningabílstjórar noti til að upplýsa hvorn annan um færð og þar hafi greinilega fleiri lent í þessum blæðingum.

Svipaðar aðstæður og 2013

Svipaðar aðstæður komu upp í janúar árið 2013 og fjallaði mbl.is þá talsvert um málið. Kom í ljós að blæðingarnar voru raktar til þess að Vegagerðin hefði notað gallaða repjuolíu sem  íblöndunarefni við malbikunarframkvæmdir. Grétar segir að Vegagerðin sé enn að nota lífdísilefni við íblöndunina í staðinn fyrir „white sprit“ sem áður var notað.

Tjaran sest fyrir á slöngur og annan viðkvæman búnað.
Tjaran sest fyrir á slöngur og annan viðkvæman búnað. Mynd/Grétar Viðarsson

Grétar bendir á að ef það er dregið að þrífa bílana harðni tjaran og valdi eyðileggingu. Til dæmis geti hún eyðilagt dekk, sest á fjöðrunarbúnað og nagað í gegnum loftpúða auk þess að skemma rafmagnslagnir. Sem dæmi um mögulegan kostnað vegna þessa segir Grétar að ef tjaran skemmi dekkin kosti hvert stykki af afturdekkjum um 100 þúsund krónur og undir einum bíl séu átta slík.Sagðist hann hafa árið 2013 krafist bóta af Vegagerðinni og verið greitt fyrir þrif á bílunum. Það hafi kostað um hálfa milljón.

Segir þetta viðbótarskatt á bifreiðaeigendur

Gagnrýnir Grétar að Vegagerðin hafi ekki brugðist betur við þeim blæðingum sem komu upp árið 2013 og noti enn lífdísil. Segir hann stofnunina með þessu reyna að spara smá pening sem endi í staðinn á vegfarendum í formi skatts við að þrífa bíla eða aukið viðhald. Segist hann nú þegar borga 4 milljónir á ári í kílómetragjald á hvern flutningabíl til viðbótar við olíugjaldið. „Það telur í milljónum ef ekki tugum milljóna á ári sem þetta fyrirtæki borgar í skatt beint til vegamála. Svo á ég að taka á mig svona til viðbótar. Það get ég ekki sætt mig við,“ segir Grétar.

Olían sem kom af bílnum eftir að tjaran var þrifin …
Olían sem kom af bílnum eftir að tjaran var þrifin af. Mynd/Grétar Viðarsson

Þekkt fyrirbæri sem á ekki að koma á óvart

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir í samtali við mbl.is að vetrarblæðingar á vegum séu þekkt fyrirbæri og ætti ekki að koma neinum á óvart. Aftur á móti sé erfitt að spá fyrir um hvenær slíkt komi upp, enda spili þar inn í flóknar veðurfræðilegar aðstæður þar sem allt þurfi að smella saman svo malbikinu fari að blæða.

Tjaran safnast undir bílinn.
Tjaran safnast undir bílinn. Mynd/Grétar Viðarsson

Vona að bikfeita muni leysa vandann

Hann segir Vegagerðina núna vinna að því að þróa svokallaða bikfeitu, en það er notað í staðinn fyrir íblöndunarefni og sé það sem Vegagerðin bindi vonir við í framtíðinni að muni koma í veg fyrir blæðingar. Segir hann að áður fyrr hafi sumarblæðingar verið algengar á vegum, en með komu lífdísils hafi það næstum heyrt sögunni til. Í dag komi hins vegar einstaka sinnum upp vetrarblæðingar. Sérstaklega hafi það verið slæmt í janúar 2013 sem rakið var til gallaðrar repjuolíu sem íblöndunarefnis.

Mynd/Grétar Viðarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert