Umhverfisstofnun og sóttvarnalæknir telja að ekki sé þörf á að grípa til aðgerða vegna reyks og brunalyktar frá kísilverksmiðjunni í Helguvík.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Landlæknis. Þar segir að Umhverfisstofnun hafi farið í reglulegt eftirlit á svæðið á síðustu vikum og fylgst með niðurstöðum loftgæðamælinga. Frá því verksmiðjan fór í gang hafi mælingar á mengunarefnum aldrei farið yfir skilgreind viðmiðunarmörk vegna heilsuverndar manna.
Frétt mbl.is: Íbúar Reykjanesbæjar áhyggjufullir
Sóttvarnalæknir hefur jafnframt framkvæmt rannsókn til að kanna möguleg heilsufarsleg áhrif á fólk sem býr nálægt kísilverksmiðjunni. Í tilkynningunni segir að sú rannsókn sýni enga aukna fjölgun þeirra sem fá greiningarnar astmi, hálsbólga, öndunarfæraeinkenni, augneinkenni eða útbrot.
Frétt mbl.is: Fjöldi ábendinga um mengun í Helguvík
„Sóttvarnalæknir hefur einnig verið í samvinnu við umdæmislækni sóttvarna á Suðurnesjum en að sögn hans hafa starfandi læknar á svæðinu ekki orðið varir við aukningu á einkennum sem rekja má til mengunar frá kísilverksmiðjunni. Samkvæmt rannsóknum sóttvarnalæknis er því ekkert sem bendir til að fólk hafi almennt orðið fyrir heilsufarslegum áhrifum vegna mengunar frá kísilverksmiðjunni í Helguvík,“ segir í tilkynningunni.
Frétt mbl.is: „Eins og logandi skógur í kring“
„Það er sameiginlegt mat Umhverfisstofnunar og sóttvarnalæknis að ekki sé þörf á að grípa til aðgerða vegna reyks frá verksmiðju og brunalyktar á svæðinu. En bæði sóttvarnalæknir og Umhverfisstofnun munu fylgjast náið með og vakta bæði umhverfi og menn á svæðinu með tilliti til hugsanlegra mengunaráhrifa.“