Hvalnesbirnan feit og fín

Birnan var felld við bæinn Hvalnes á Skaga í Skagafirði …
Birnan var felld við bæinn Hvalnes á Skaga í Skagafirði í sumar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hvíta­birn­an sem var felld 16. júlí í sum­ar á Hval­nesi á Skaga var á 12. ári og í góðum hold­um. Hún­arn­ir sem hún átti voru lík­lega um sjö mánaða gaml­ir þegar hún synti til lands­ins. Þeir hafa lík­lega far­ist á leiðinni til lands­ins en birn­an var með mjólk á spena. Hún­arn­ir hafa lík­lega farið síðast á spena á ís­jaka því þeir geta ekki sogið móður sína á sundi. 

Þetta kem­ur fram í krufn­ingu á hvíta­birn­unni sem greint er frá á vef Til­rauna­stöðvar Há­skóla Íslands á Keld­um 

Hval­nes­birn­an sker sig frá öðrum hvíta­birn­um sem hafa gengið á land hér á landi því hún var vel í hold­um og um 30% af lík­amsþyngd­inni var fita. Hvíta­birn­irn­ir sem hafa synt hingað hafa verið mjög rýr­ir og fitu­birgðir litl­ar eða jafn­vel gjör­sam­lega upp­urn­ar.

Hval­nes­birn­an hafði eign­ast nokkr­um sinn­um húna en lík­lega einu sinni náð að koma þeim al­menni­lega á legg eða þar til þeir náðu að kom­ast á þriðja ár og verða sjálf­stæðir. Í hin skipt­in hafi hún­arn­ir far­ist, fyrst þegar hún var 5 vetra, næst 9 vetra en þá virðist eitt­hvað hafa komið upp á með upp­eldið strax eft­ir fyrsta vet­ur­inn.

Ein vígtönn­in var brot­in. Þrjú sár sáust á framan­verðum lík­ama dýrs­ins og gróf í einu þeirra. Birn­an var einnig með sár í munn­viki eft­ir ein­hvern ný­leg­an áverka sem gæti hafa orðið til við að rek­ast til dæm­is á vír í girðingu. Líf­færi voru að mestu eðli­leg. 

Í skýrsl­unni er vikið að sníkju­dýr­um, sem eru jafn­an í þess­um bjarn­dýr­um en finn­ast ekki ann­ars hér á Íslandi, sem er sjald­gæft á heimsvísu. Sníkju­dýr­a­rann­sókn leiddi í ljós þrjár teg­und­ir sníkju­dýra. Ein teg­und­anna var tríkín­an Trichinella nati­va en all­ir vef­ir dýrs­ins inni­halda þess­ar lirf­ur. Þær lifa það af að frjó­sa mánuðum og jafn­vel árum sam­an og geta orðið upp­spretta sýk­inga nái til dæm­is nag­dýr að narta í smitaða vefi.

Ísland er eitt fárra landa á jarðar­kringl­unni sem laust er við þenn­an vá­gest, seg­ir enn­frem­ur í niður­stöðu krufn­ing­ar­inn­ar. 

Lík­legt er að birn­an hafi verið hér á landi um skamma hríð. Rann­sókn­ir á fæðuleif­um sýndu að Hval­nes­birn­an var búin að vera það lengi uppi á landi að þurr­lend­is­gróður sem hún hafði nartað í ofan fjörumarka var þegar til staðar aft­ast í ristli.


mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert