Hvalnesbirnan feit og fín

Birnan var felld við bæinn Hvalnes á Skaga í Skagafirði …
Birnan var felld við bæinn Hvalnes á Skaga í Skagafirði í sumar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hvítabirnan sem var felld 16. júlí í sumar á Hvalnesi á Skaga var á 12. ári og í góðum holdum. Húnarnir sem hún átti voru líklega um sjö mánaða gamlir þegar hún synti til landsins. Þeir hafa líklega farist á leiðinni til landsins en birnan var með mjólk á spena. Húnarnir hafa líklega farið síðast á spena á ísjaka því þeir geta ekki sogið móður sína á sundi. 

Þetta kemur fram í krufningu á hvítabirnunni sem greint er frá á vef Tilraunastöðvar Háskóla Íslands á Keldum 

Hvalnesbirnan sker sig frá öðrum hvítabirnum sem hafa gengið á land hér á landi því hún var vel í holdum og um 30% af líkamsþyngdinni var fita. Hvítabirnirnir sem hafa synt hingað hafa verið mjög rýrir og fitubirgðir litlar eða jafnvel gjörsamlega uppurnar.

Hvalnesbirnan hafði eignast nokkrum sinnum húna en líklega einu sinni náð að koma þeim almennilega á legg eða þar til þeir náðu að komast á þriðja ár og verða sjálfstæðir. Í hin skiptin hafi húnarnir farist, fyrst þegar hún var 5 vetra, næst 9 vetra en þá virðist eitthvað hafa komið upp á með uppeldið strax eftir fyrsta veturinn.

Ein vígtönnin var brotin. Þrjú sár sáust á framanverðum líkama dýrsins og gróf í einu þeirra. Birnan var einnig með sár í munnviki eftir einhvern nýlegan áverka sem gæti hafa orðið til við að rekast til dæmis á vír í girðingu. Líffæri voru að mestu eðlileg. 

Í skýrslunni er vikið að sníkjudýrum, sem eru jafnan í þessum bjarndýrum en finnast ekki annars hér á Íslandi, sem er sjaldgæft á heimsvísu. Sníkjudýrarannsókn leiddi í ljós þrjár tegundir sníkjudýra. Ein tegundanna var tríkínan Trichinella nativa en allir vefir dýrsins innihalda þessar lirfur. Þær lifa það af að frjósa mánuðum og jafnvel árum saman og geta orðið uppspretta sýkinga nái til dæmis nagdýr að narta í smitaða vefi.

Ísland er eitt fárra landa á jarðarkringlunni sem laust er við þennan vágest, segir ennfremur í niðurstöðu krufningarinnar. 

Líklegt er að birnan hafi verið hér á landi um skamma hríð. Rannsóknir á fæðuleifum sýndu að Hvalnesbirnan var búin að vera það lengi uppi á landi að þurrlendisgróður sem hún hafði nartað í ofan fjörumarka var þegar til staðar aftast í ristli.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka