Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir nýjan samning sambandsins við Félag grunnskólakennara vera stóran bita fyrir mörg sveitarfélög.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, sagði í viðtali við fréttavefinn Eyjar.net í gær að kjarasamningurinn fæli í sér „hátt í 50 milljóna kostnaðarauka“ fyrir sveitarfélagið en í fjárhagsáætlunum var gert ráð fyrir 40 milljóna rekstrarafgangi. Því sé ljóst að aðgerða sé þörf til að koma til móts við aukin útgjöld.
Halldór segir stöðuna álíka í fleiri sveitarfélögum. „Við vissum að í þessu værum við að teygja okkur alveg til hins ýtrasta [...] Mér sýnist þetta vera staðan víða. Það breytir því ekki að við verðum að borga kennurum góð laun, en þetta tekur auðvitað á.“ Telur Halldór að heildarkostnaðurinn hlaupi á milljörðum en hann vonast þó til að kjarasamningurinn verði samþykktur því í honum felist líka ákveðin tækifæri.